149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í Silfrinu síðastliðinn sunnudag sakaði hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson mig um að hafa þjófkennt alla þingmenn. Áður en ég held áfram vil ég að þetta sé alveg skýrt svo að allir skilji það: Nei, þetta er rangt. Ég þjófkenndi ekki alla þingmenn. Ég bað um rannsókn á öllum þingmönnum og undanskildi ekki sjálfan mig.

Í fyrirspurnum mínum um aksturskostnað þingmanna komu fram sláandi háar tölur. Þær upplýsingar kyntu undir sögusagnir sem höfðu lengi gengið manna á milli um að þarna væri einhver sjálftaka í gangi. Jafnframt sagði skrifstofustjóri Alþingis í viðtali við Stundina, með leyfi forseta:

„Skrifstofa Alþingis hefur ekki talið það vera í verkahring sínum að leggja mat á það hvort þingmaður á erindi á fund sem hann er t.d. boðaður á eða hvort rétt hafi verið boðað til fundar. Slíkt verður að vera í höndum þingmannsins sjálfs.“

Vegna þess hversu háar upphæðirnar eru, vegna sögusagna um sjálftöku, vegna þess að dómgreindin liggur hjá þingmanninum og vegna þess hversu lítið traust er á Alþingi er óhjákvæmilegt að biðja um rannsókn á því hvort hér sé um misferli að ræða.

Hér er um að ræða tækifæri til að afsanna sögusagnir um sjálftöku og spillingu. Þetta er eina leiðin sem hægt er að fara til að byggja upp traust. Það er ekki hægt að láta þetta kyrrt liggja. Vantraustið hverfur ekki þó að við hunsum það. Ég bið þingheim um að taka beiðni mína um þessa rannsókn alvarlega. Ef ekki vegna þeirra tilefna sem ég nefndi hér áðan þá út af þeim játningum sem liggja fyrir um greiðslur fyrir erindi sem varða prófkjör, almennar kosningar og sjónvarpsþáttagerð.

Enginn sem ég hef talað við utan þessa þings hefur verið sammála því að þau erindi séu hluti af störfum þingmanna. Það verður því að teljast merkilegt ef skoðanir fólks hér innan þings eru aðrar. Þess vegna eru til sögusagnir um sjálftöku. Þess vegna þarf að fá skýr svör um hvað er eðlilegt, ekki hvað okkur finnst eðlilegt heldur hvað samfélaginu finnst eðlilegt. Mismunur þarna á milli býr til vantraust og grun um spillingu og sjálftöku.