149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:22]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Robert Peel, sem stofnaði fyrstu lögreglusveit nútímans, lagði fram níu lögmál fyrir góða löggæslu. Þau ættu allir að kynna sér. Ég vil draga sérstaklega fram í þessari umræðu tvær reglur, þriðju og níundu. Þriðja löggæslulögmál Peels segir, með leyfi forseta:

„Til að afla sér og viðhalda virðingu almennings þarf lögreglan að tryggja vilja og samvinnu almennings til að fylgja lögum.“

Það var gert hér á árum áður með starfi forvarnadeildar lögreglunnar. Hún var lögð af í sparnaðarskyni fyrir rúmlega 10 árum og með henni rofnuðu gríðarlega mikilvæg tengsl milli lögreglumanna og ungmenna. Tækifæri til að upplýsa ungmenni landsins um lögregluna og samfélagið og gagnkvæma virðingu innan þess hvarf við þetta að vissu leyti og einnig tengsl lögreglumanna við nærumhverfið, sama hvort það sneri að uppljóstrun brota eða snemmtækri íhlutun þegar börn stefndu út af sporinu.

Níunda löggæslulögmál Peels segir, með leyfi forseta:

„Skilvirkni lögreglu er mæld í lágri afbrotatíðni og fáum frávikum frá allsherjarreglu en ekki út frá sýnileika löggæslunnar við að takast á við verkefni sín.“

Þegar óskað er eftir því að löggæsla verði sýnilegri er fyrst og fremst verið að óska eftir því að almenningur óttist lögregluna meira. Það er fasísk hugmynd um tilgang löggæslu. Henni hafna Píratar á sama hátt og Róbert Peel sjálfur.

Við þurfum frekar að huga að andlegu heilbrigði löggæslumanna, streituviðbrögðum og kulnun innan þeirra raða. Við þurfum að nota það sem viðmið fyrir hvort nægilegt fjármagn og þar af leiðandi nægileg mönnun sé í lögreglunni. Í dag er ekki svo.

Ef við viljum að löggæsla á Íslandi verði sterk, skilvirk og í samræmi við góðar löggæsluhefðir þarf að tryggja næga mönnun. Við þurfum að tryggja öfluga samvinnu við borgarana og að lögreglan sjálf njóti þeirrar virðingar sem hún á skilið frá stjórnkerfinu.