149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Góð og öflug löggæsla er mikilvæg í hverju samfélagi til að skapa öryggi. Um leið og við íbúar upplifum öryggisleysi hefur það mjög mikil áhrif á allt líf okkar.

Nú liggur fyrir að frá 2013 hefur verið sett aukið fé til löggæslu og löggæslan hefur batnað. Það er ekki svo að stjórnmálamenn ákveði almennt hvernig lögreglan ver þeim fjármunum heldur meta embættin sjálf hvað sé nauðsynlegt á hverjum tíma og hvar áherslurnar liggi. Við erum auðvitað á góðri vegferð með þau mál.

Menn hafa talað um að fjöldi lögreglumanna sé minni en taka verður með í reikninginn að löggæsla er með öðrum hætti en áður, tæknin hefur breyst o.s.frv.

Hvað varðar sýnilega löggæslu þá er hún, a.m.k. hvað mig varðar, mjög sýnileg. Ég er stöðvaður mjög reglulega og látinn blása þrátt fyrir afar vandaðan akstur Ég hef því verulegar efasemdir um að aðalatriðið sé að lögreglan sé sýnileg heldur frekar að hún sé vel tækjum búin og lögreglumenn hafi góða menntun og þekkingu á því sem þarf að gera í starfinu.