149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:40]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Lögreglumenn og -konur á Íslandi eru of fá til að takast á við þau verkefni sem ríkið felur lögreglunni. Álagið er of mikið og er skýringuna að miklu leyti að finna í fjárlögum. Lögreglan fær ekki fjármagn sem þarf til að halda úti löggæslu. Til að embættin geti sinnt löggæslu þarf einfaldlega að úthluta þeim fjármagni til þess, og ekki bara í einhver sérverkefni, eins og hefur verið hátturinn hjá hæstv. dómsmálaráðherra undanfarin ár, heldur þarf að auka almennt fjármagn til lögreglu.

Svo gætum við t.d. hætt að eyða púðri í að eltast við neytendur fíkniefna. Þá er ég ekki einu sinni að tala um lögleiðingu fíkniefna heldur aðeins að refsa ekki þeim sem eru með neysluskammta á sér. Slíkt myndi leiða af sér mannúðlegri nálgun þar sem einstaklingar sem eiga við fíknivanda að stríða myndu fá viðeigandi heilbrigðisaðstoð í stað refsingar. Sú nálgun myndi einnig losa um verkefnastöðu lögreglumanna til annarra verka.

Gera þarf skýrari grein fyrir skipulagi löggæslu á landinu öllu. Ríkislögreglustjóri gegnir eftirlitshlutverki gagnvart öðrum embættum ásamt því að sinna löggæslu í formi sérsveitar og fjarskiptamiðstöðvar. Eftirlit með þessum sviðum er á sömu hendi og framkvæmdirnar. Slíkt býður heim hættunni á spillingu. Auðvitað ætti slíkt eftirlit að vera algjörlega sjálfstætt og með burði til að sinna starfinu af kostgæfni.

Forseti. Það er ekki öfundsvert starf að vera í lögreglunni í dag. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið er gríðarleg óánægja innan lögreglunnar, sérstaklega hvað varðar stöðu almennrar löggæslu. Enginn hvati er til að haldast í starfi sem almennur lögreglumaður. Laun lögreglumanns hækka ef hann verður varðstjóri og dagvinna rannsóknardeildanna heillar einnig marga. Það gerir það að verkum að nýliðar í lögreglunni hverfa eins fljótt og hægt er til annarra starfa innan lögreglunnar, sem hefur orsakað mannfæð og reynsluleysi hjá fremstu víglínu lögreglunnar. Þessu verður að breyta.

Ég gæti haldið lengi áfram enda ærið tilefni til, en látum þetta duga í bili. Vonandi mun ríkisstjórnin sjá að sér við gerð næstu fjármálaáætlunar og laga þessa vankanta.