149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:42]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, fyrir sérstaka umræðu um málefni lögreglunnar, aðallega um sýnilega löggæslu en líka margt annað. Ég vil jafnframt þakka hæstv. dómsmálaráðherra Sigríði Á. Andersen fyrir innlegg hennar og taka undir með hæstv. ráðherra og málshefjanda. Það er mikilvægt sem þau draga fram, að við ættum alltaf að hafa í huga þegar við erum að velta fyrir okkur skipulagi og fjárframlögum til löggæslu það lykilhlutverk sem hún gegnir sem ein af grunnstoðum ríkisins í öryggismálum og sem viðbragðskerfi samfélagsins. Kannski er það þess vegna sem við höfum á undanförnum árum séð miklar breytingar á skipulagi lögreglunnar með fækkun og sameiningu og mikilvægt að við skilgreinum á sama tíma eðli og umfang starfans. Mælingar á öryggis- og þjónustustigi eru okkur nauðsynlegar þegar við tjáum okkur um það hvort fjárveitingar eru nægjanlegar eður ei, alltént þannig að við tryggjum sem hagkvæmasta nýtingu fjármuna. Þess vegna var mjög mikilvægt að fá innlegg frá hv. þm. Fjölni Sæmundssyni beint af vettvangi, ef svo má segja. Það er þó staðreynd að við höfum aukið framlög hér allt frá árinu 2013, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson benti á. Á sl. fjórum árum höfum við aukið framlög verulega, um 5,3 milljarða kr., sem er 56% hækkun, á sama tíma og neysluverðsvísitala hefur hækkað um 10% og launavísitala um 32%.

Það er því um þó nokkra raunhækkun að ræða, 4,3 milljarða umfram neysluverðsvísitölu og 2,3 milljarða umfram hækkun launavísitölu. Þó er alveg rétt (Forseti hringir.) að bæði með aukinni tækni og öflugri upplýsingakerfum og svo harðari heimi er sýnileg löggæsla, frumkvæðislöggæsla og ýmislegt af því sem fram hefur komið í umræðunni mjög mikilvægt.