149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka innlegg hæstv. dómsmálaráðherra. Það er ekki svo að embættin hafi fengið peninga sem þau geta spilað úr sjálf vegna þess að þeir peningar hafa verið eyrnamerktir í ákveðin verkefni, og það er góðu heilli gert, kynferðisbrot o.s.frv. Þrátt fyrir að fjárheimildir hafi farið fram úr launavísitölu er það vegna þess að menn hafa verið að fara í ákveðin verkefni, landamæri, kynferðisafbrot, eins og ég sagði áðan, o.s.frv., ekki til þess að bæta í sýnilega löggæslu. Það segir sig sjálft að þegar þrír menn eru á næturvakt í hverfum á höfuðborgarsvæðinu sem telja 60.000 er það ekki nóg. Ég vildi óska þess að ég yrði fyrir áreiti af sýnilegri löggæslu í Reykjavík eins og kom fram áðan. Ég myndi fagna því mjög ef ég yrði látinn blása eða önnur afskipti væru höfð af mér reglulega.

Ég vil hins vegar benda á að í öllum brotum er aukning milli 2017 og viðmiðunaráranna þar á undan, alveg sama hvort við erum að tala um auðgunarbrot, brot gegn friðhelgi einkalífs, eignaspjöll, fíkniefnabrot, kynferðisbrot, nytjastuld, ofbeldisbrot, alls staðar er aukning. Þarna erum við að tala um brot sem hugsanlega er hægt að koma í veg fyrir, bæði með forvörnum og með sýnilegri löggæslu. Þess vegna brýni ég hæstv. ráðherra enn til þess að koma fram með í næstu fjárlögum umtalsverða aukningu á fjárheimildum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, til að unnt verði að bæta í sýnilega löggæslu. Meðan það er svo, eins og ég segi, að forgangsraða þarf útköllum lögreglu í mál eftir alvarleika erum við ekki á góðum stað. Með virðingu fyrir fólki sem er ráðið til að vera á tölvum og til að vera í rannsóknarvinnu sendir maður ekki það fólk í útköll, hæstv. ráðherra, það er bara svoleiðis. Þess vegna vantar okkur lögreglumenn til að stækka vaktirnar, til að stækka stabbann sem getur farið í útköll (Forseti hringir.) og til að sýnileg löggæsla sé efld. Þeir einu sem óttast sýnilega löggæslu eru þeir sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu.