149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur snúist aðallega um sýnilega löggæslu. Þegar kemur að því að mæla árangur eða sýnilega löggæslu, hvort hún er til staðar eða ekki, held ég að t.d. sé ágætt að líta á brotin sem eru skráð hjá lögreglunni. Umferðarlagabrotum á höfuðborgarsvæðinu, svo að ég taki sem dæmi, fjölgaði milli áranna 2017 og 2018 um 18%. Ekki hafa verið fleiri skráningar umferðarlagabrota hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2009.

Þetta er kannski til marks um það hversu sýnileg löggæslan er vegna þess að umferðarlagabrot eru ekki skráð hjá lögreglu nema lögreglan verði vitni að þeim. Þetta er kannski ágætur mælikvarði á sýnileikann og bendir til þess að sýnileikinn hafi aukist við umferðareftirlit á þessum árum. Innbrotum fækkaði hins vegar miðað við meðaltal áranna 2009–2018. Öll innbrot eru tilkynnt lögreglu, geri ég ráð fyrir, eða langflest. Mögulega má þakka þessa fækkun auknum sýnileika lögreglu. Þjófnaðarbrotum fækkaði líka. Ég geri líka ráð fyrir að þjófnaðarbrot sé tilkynnt til lögreglu. Þeim fækkaði um 11% á milli áranna 2017 og 2018. Fækkunin var um 5% miðað við meðaltalið 2009–2016.

Stærstur hluti skráðra fíkniefnabrota er vegna frumkvæðisvinnu lögreglu. Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði umtalsvert á milli áranna 2017 og 2018, um 21%, vegna frumkvæðisvinnu lögreglu. Þarna mætti velta því fyrir sér hvort sýnileikinn hafi ekki líka áhrif. Ég tek hins vegar undir áhyggjur manna hvað varðar lögreglumenn á landsbyggðinni og almenna mönnun. (Forseti hringir.) Ég árétta það sem ég hef sagt, þetta horfir allt til bóta og það er ekki hægt að halda neinu öðru fram en að löggæslan hafi verið efld hér svo um munar frá árinu 2014 og sérstaklega síðustu tvö árin. Þar með talinn er sýnileiki lögreglunnar.