149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

Schengen-samstarfið.

566. mál
[15:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi, eins og aðrir ræðumenn í umræðunni, þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að flytja þinginu þessa skýrslu. Ég held að hún gefi gott tækifæri til að ræða þátttöku okkar í Schengen, bæði á almennum nótum en líka út frá einstökum atriðum. Skýrslan sem liggur fyrir er góð greinargerð sem ætti að vera til þess fallin að draga fram þær staðreyndir og þá þróun sem við þurfum að fylgjast með í þessum efnum.

Umræða um Schengen-mál hefur stundum að mínu mati verið í dálitlum upphrópunarstíl, sérstaklega þegar menn hafa verið að gagnrýna þátttöku okkar í því samstarfi. Við Íslendingar þurfum alltaf að vega það og meta, gaumgæfa vel, í hvaða alþjóðasamstarfi við tökum þátt og hverju ekki. Þar þarf að fara fram greinargott og skynsamlegt hagsmunamat, hvort ávinningurinn af samstarfinu sé meiri en ókostirnir sem því kunna að fylgja.

Það var gert þegar við gerðumst aðilar að Schengen-samstarfinu á sínum tíma. Og þótt það sé auðvitað rétt sem bent hefur verið á í umræðunni, að Schengen-samstarfið hafi tekið miklum breytingum og það umhverfi sem við erum að fást við að þessu leyti hefur vissulega tekið miklum breytingum á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru frá því að við tókum ákvörðun um að verða aðilar að Schengen, þá er það alla vega mín niðurstaða að kostirnir séu töluvert fleiri en ókostirnir.

Ég vil í meginatriðum rökstyðja það með því að samstarf við landamæra- og löggæsluyfirvöld í öðrum Evrópulöndum er lykilatriði fyrir okkur til að við getum rækt þær skyldur sem við höfum á þessu sviði. Beinn aðgangur að upplýsingakerfum er lykilatriði í því sambandi. Ég hef ekki neina sannfæringu fyrir því að það sé möguleiki fyrir okkur að gera einhvers konar tvíhliða samninga við einstök Evrópulönd sem muni koma í staðinn fyrir slíkan aðgang. Ég held að það sé alveg sama hvað við, — hvað eigum við að segja? — setjum marga menn í að skoða passa á landamærum, ég held að það skipti ekki máli, heldur fyrst og fremst aðgangur að gögnum, aðgangur að upplýsingum. Samstarf við yfirvöld í öðrum löndum er lykilatriði þegar kemur að því að meta áhættu sem fylgir komu einstakra manna eða hópa hingað til lands.

Ég segi fyrir mitt leyti að kostirnir virðast mér yfirgnæfa ókostina að töluverðu leyti, og að öllu leyti. Það er alla vega mín niðurstaða að ekki sé tilefni fyrir okkur að taka aðild okkar að Schengen til endurskoðunar. En að sjálfsögðu þurfum við að fylgjast vel með þróun, fylgjast með umræðum, taka umræðu um það með reglulegu millibili hvort samstarf eigi jafn vel við í dag og það átti fyrir 10–20 árum. Að sjálfsögðu. Við þurfum að gera það varðandi allar okkar ákvarðanir. En ég hef enga sannfæringu fyrir því að tilefni sé til að rjúfa tengsl okkar við Schengen-samstarfið eins og sakir standa. Ég held þvert á móti að auknar áskoranir á þessu sviði, sem hafa verið raktar hér í ræðum annarra ræðumanna, geri að verkum að Schengen-samstarfið sé mikilvægara en það var í upphafi. Það reynir meira á það.

Vissulega er aukið álag á landamæri, bara ef við tökum tíföldun þeirra erlendu ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar á örfáum árum, það skapar auðvitað meira álag. Það gerir að verkum að setja þarf meiri fjármuni, meiri mannskap, meiri tækjabúnað í að sinna landamæraeftirliti þar og sinna þeim málum. Mikið af þeim athugasemdum sem hér hefur verið vikið að og gerðar voru við úttekt árið 2017 felst einmitt í slíkum ábendingum, um að efla þurfi þessa þætti í starfsemi okkar.

Við því hefur þegar verið brugðist af hálfu núverandi ríkisstjórnar og fjárlagafrumvarp og áform í fjármálaáætlun gefa til kynna að ríkisstjórnin tekur þær ábendingar mjög alvarlega og er að setja töluvert mikla fjármuni til að bæta úr því sem athugasemdir voru gerðar við.

Allt eru þetta þættir sem við þurfum að hafa í huga í þessari umræðu.

Ég nefndi áðan aukinn ferðamannafjölda, auknar komur útlendinga til landsins sem hafa margfaldast og hafa verið mjög mikilvægar fyrir okkur efnahagslega og fyrir þjóðfélagið á því uppbyggingarskeiði sem við höfum séð á síðustu árum. En álagið er líka mikið vegna aukins flóttamannastraums. Við höfum ekki farið varhluta af honum, frekar en aðrar Evrópuþjóðir. Við slíkar aðstæður verður auðvitað líka mikilvægt að eiga samstarf við nágrannaríkin til að bregðast við því álagi sem þær aðstæður skapa.

Ég held að mikilvægt sé að við tökum þessi mál með reglulegu millibili til umræðu. Skýrsla ráðherra er gott innlegg í þingið við þær aðstæður sem nú eru uppi. Við umræður um ríkisfjármál er eðlilegt að þeir þættir sem hér hefur verið vikið að og varða spurningar um fjármuni til þessa málaflokks eigi vel við. En frá mínum bæjardyrum séð myndi ég segja að ef menn vilja í alvöru talað leggja til að við með einhverjum hætti hverfum frá Schengen-samstarfinu myndi ég kalla eftir því að menn kæmu jafnframt fram með einhverjar raunhæfar hugmyndir um hvernig það verði gert svo að við getum sinnt áfram hlutverki okkar á þessu sviði, að við getum áfram tryggt það öryggi sem um er að ræða, en um leið varðveitt ferðafrelsi eins og kostur er.

Þetta eru atriði sem ég vil koma með inn í umræðuna á þessu stigi, en þakka ráðherra aftur fyrir innlegg hennar í þessu.