149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

Schengen-samstarfið.

566. mál
[16:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu sem er greinargóð; í henni eru notadrjúgar upplýsingar. Ég er hlynnt Schengen-samstarfinu og finnst þessum fjármunum afskaplega vel varið. Skýrslan er jú ekki hvít, hún er, skulum við segja, milligrá. Það er alveg ljóst að það er eitt og annað sem út af stendur og þarf að gera. Ég held að þegar fólk horfir til nútímans þá hljótum við öll að vera sammála um að hin frjálsa för og persónubundið eftirlit á landamærum Schengen-ríkjanna hljóti að vera þægilegra en hitt, og að við myndum væntanlega ekki vilja hverfa til baka.

Í skýrslunni er talað um að til þess að hægt sé að fella niður eftirlit á innri landamærunum hafi þátttökuríkin sett sér samræmdar reglur á ytri landamærunum og svo er talað um þessa, eins og hér hefur verið drepið á, umfangsmiklu lögreglusamvinnu sem felst í því að nota m.a. þetta SIS-kerfi sem er hið samræmda upplýsingakerfi sem löggæsluyfirvöld allra Schengen-ríkjanna nota og eru upplýsingar skráðar bæði um einstaklinga og vörur. Svo er talað um skrifstofur í því samhengi og er SIRENE-skrifstofan undir alþjóðadeild embættis ríkislögreglustjóra. Og hverjir nota svo þetta kerfi? Það eru lögreglumennirnir sem sinna landamæraeftirliti og eftirliti með útlendingum og öðru samstarfi innan Schengen-svæðisins í fíkniefnamálum, vopnamálum og baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum. Það er kannski það sem mér finnst vera einna stærsti pósturinn í þessu. Hæstv. ráðherra kom fyrir fjárlaganefnd og kynnti áform sín, m.a. vegna hinna, eins og hér er drepið á, alvarlegu annmarka í framkvæmdinni á Keflavíkurflugvelli og veikleika í stjórnskipulagi málaflokksins — að það skorti mannafla og ekki væri hægt að fylgja eftir gæðakröfum og búnaðarkaupum líka. Þessar 837 milljónir voru settar í búnaðarkaup og að mig minnir í 44 stöðugildi. Það er því verið að taka verulega til í þessu og ég held að það sé eitthvað sem hljóti þá að koma okkur betur þegar næsta úttekt fer fram. Eins og hér hefur líka verið bent á eru þetta engar smááskoranir sem Schengen hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár. Þegar við horfum á allan þennan fjölda flóttamanna frá 2015 eða kannski aðeins fyrr, en sérstaklega síðan þá, og þær hryðjuverkaárásir sem hafa verið gerðar í löndunum hér í kringum okkur, sem við getum ekki horft fram hjá. Við höfum því miður séð koma hingað til lands fólk sem er að stunda skipulagða glæpastarfsemi. Hér var mansal nefnt sem er einn af ömurlegum fylgifiskum skipulagðrar glæpastarfsemi, en auðvitað svo margt annað.

Hér er líka minnst á Frontex, þ.e. landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu þar sem verið er að tala um töluverðar breytingar, t.d. á fjölda starfsfólks í höfuðstöðvunum, sem hefur verið tvöfaldaður. Lögð var aukin áhersla á verkefni stofnunarinnar vegna veikleikamats, áhættugreiningar og áhættumats yfir landamæri og svo voru lagðar skyldur á Schengen-ríkin um framlag á tækjum fyrir sameiginlegar aðgerðir Frontex. Fjárframlögin þar hafa aukist töluvert en kannski gengið hægar hjá okkur. Mér finnst líka ágætt að segja frá því hér að framkvæmdastjórn ESB hefur lagt aukna áherslu á að stækka eigi pott landamæravarða umtalsvert. Ísland er kannski aðeins að spyrna við fótum sem lítið land, að þurfa ekki að leggja jafn mikla fjármuni í aukastarfsemi Frontex og kostnað við landamæraeftirlit einstakra ríkja. Þetta eru nokkur kerfi sem hér eru undir. Oft er kannski fókuserað á eitthvað eitt af því að þetta er ekki daglega á vörum fólks.

Ég játa að ég þekkti þetta ekki allt þegar ég las þessa skýrslu. Þess vegna fannst líka ágætt að fara í gegnum þetta yfirlit. Hér er talað um Entry/Exit-kerfi þar sem verið er að tala um skráningu komu og brottfara á Schengen-svæðinu. Þar er megintilgangurinn að auka gæði landamæraeftirlits og fylgjast með tíma útlendinga á Schengen-svæðinu sjálfvirkt. Þetta kerfi styrkir löggæsluyfirvöld í baráttu, eins og ég sagði áðan, gegn hryðjuverkum og glæpum þvert á landamæri. Síðan er líka talað um Schengen Borders Code sem felur í sér að Evrópubúar sæti kerfisbundnu eftirliti með för yfir ytri landamæri. Það er svo sem það sem útlendingar hafa ævinlega gert. Hér eru lagðar til breytingar sem eru liður í að auka öryggi vegna endurtekinna hryðjuverkaárása á Evrópu síðastliðið ár. Það er það sem við höfum kannski heyrt, því miður, svo mikið í fréttum, í Frakklandi og víðar þar sem ódæðismennirnir og aðrir sem skipulögðu og framkvæmdu þessar árásir voru Evrópubúar sem höfðu sumir hverjir ferðast um ytri landamæri Schengen, jafnvel til Sýrlands og til baka eða frá fleiri löndum líka.

Eins og ég sagði þá lagði framkvæmdastjórnin fram tillögu um umfangsmiklar breytingar á reglunum um Schengen, SIS-kerfið. Það varðar m.a. lögreglu- og dómsmálasamvinnu í sakamálum, eftirlit og brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl á Schengen-svæðinu. Um kostnaðarsamar aðgerðir er að ræða. Þar náðum við málamiðlun um tiltekinn hluta tillagnanna sem fjallar um landsafrit af gögnum SIS sem fékkst í raun í gegn með því að við tókum virkan þátt í þeirri vinnu sem fram fór. Það hlýtur að vera dæmi um að það skipti máli að við höfum fólk á staðnum. Hér er líka talað um tímabundið eftirlit á innri landamærum og breytingu á Schengen Borders Code þegar kemur að tímabundnu eftirliti á innri landamærunum. Þar var framkvæmdastjórnin að birta tillögu um breytingar á ákvæðum sem vörðuðu tímabundna upptöku eftirlits á innri landamærum. Um leið og tillagan var birt var lögð áhersla á að brotthvarf eftirlits, eins og hér hefur aðeins verið rætt, væri ein meginforsenda Schengen. Það skiptir máli að þau lönd sem eru áfram með þessar takmarkanir og halda áfram og eru nýbúin að auka við þann tíma — þrátt fyrir að komið hafi fram að ekki ætti að vera tækifæri til að auka við þennan tíma, að vera áfram með þessa heftu för á milli landamæra —virðast því miður halda áfram.

Mig langaði síðan aðeins að tala um útlendingamálin og ræða um það sem hér kemur fram um öruggan lista upprunaríkja. Ég hef alltaf litið svo á að það sé enginn öruggur listi um upprunaríki. Heimurinn breytist mjög hratt og í mínum huga er það ekki þannig að við getum ákveðið í dag að ákveðið ríki sé öruggt því að ekki er víst að svo verði á morgun. Alla vega er það svo, að mínu mati, þegar fólk er að leita eftir alþjóðlegri vernd. Mér fannst ágætt að sjá, af því að við höfum líka fjallað oft um Dyflinnarreglugerðina, að skoðanir eru mjög skiptar um hana en ráðherra hefur kosið að fylgja henni frekar stíft eftir. Ég hef frekar verið á móti þessari reglu, þ.e. eins og rakið er hér. Það kemur fram að kerfið í dag er ekki sjálfbært eða þykir ekki dreifa ábyrgð með sanngjörnum hætti meðal þátttökuríkja, eðlilega. Reglugerðin sjálf var kannski ekki hugsuð með þessum hætti á sínum tíma. Hún var meira hugsuð til að hafa stjórnsýsluna á einum stað. Það á ekki að vera þannig að Miðjarðarhafslöndin, sem hafa fengið yfir sig holskeflu af flóttafólki, eigi að sitja ein uppi með þann vanda. Það var ekki hugsunin þegar Dyflinnarreglugerðin var sett á sínum tíma og er kannski ástæðan fyrir því að hér er talað um að gera þurfi breytingar. Við þurfum alltaf að hugsa um það fólk sem um ræðir, fólk í vanda. Það þarf að sýna því sanngirni, ekki bara einhverju kerfi.

Hér er nefnt að meðal tillagna væri að finna nýmæli sem segja megi að feli í sér grundvallarbreytingar á kerfinu eða svokallað sanngirniskerfi sem byggist bæði á samábyrgð og skilgreindri lágmarksábyrgð hvers og eins ríkis. Nýju kerfi er ætlaði að vera sanngjarnara þannig að ábyrgð ríkja á umsóknum um alþjóðlega vernd verði dreift jafnar á aðildarríki þegar óhóflegur þrýstingur skapast á einstaka aðildarríki. Þarna þurfum við að sýna fólki sanngirni og mannúð eins og hér var nefnt, ekki bara kerfunum. Mér finnst því ástæða til að það sé reifað hér þó, eins og reifað er í skýrslunni, að fletirnir séu farnir að snertast svo víða. Ég get skilið að staðan er ólík í þeim löndum sem um þetta deila og erfitt er að ná í einhverja niðurstöðu. Kannski endar það þannig að farin verður millileið sem Svíþjóð og Þýskaland hafa lagt upp um samábyrgð og sanngirniskerfi til að reyna að ná niðurstöðu. Mér sýnist allir vera sammála um að við getum ekki haft hlutina áfram eins og kerfið er.

Að lokum erum við hér með brottvísunartilskipunina og endurkomubannið. Þar eru lagðar til breytingar um að koma á nýju kerfi á landamærunum til að hraða endursendingum á einstaklingum sem þegar hafa fengið synjun um vernd svo að kerfið verði skilvirkara og kærufresturinn styttri og ferlið gert þannig að þeir sem ljóst er að fá ekki dvöl í landi þurfi ekki að bíða svo vikum og mánuðum og jafnvel árum skipti. Við höfum lagt talsverða fjármuni í það til þess einmitt að reyna að flýta fyrir þessu ferli. Þó að enn séu brotalamir í því þá held ég að við séum að færast skref áfram í því og því ber að fagna. Auðvitað vil ég að við tökum á móti fleira fólki og hleypum fleira fólki inn í landið okkar. Þetta er vinnuaflið t.d., en svo eigum við líka bara að taka á móti fleira flóttafólki. Hér hafa ýmis sveitarfélög, t.d. á landsbyggðinni, boðið fram krafta sína til að bjóða flóttafólk velkomið og um það eigum við að sameinast að mínu mati.

Talað er um að fyrir liggi tillögur um breytt og stóraukið hlutverk stofnunarinnar CEAS og er brýnt að Ísland endurmeti aðganginn að stofnuninni. Sagt er að sá aðgangur með upplýsingum, auk þjálfunar sem stofnunin stendur að, geti aukið gæði og hraða málsmeðferðar umsókna á Íslandi. Ég spyr hvort kostnaður liggi fyrir í því. Þess er getið að þetta sé umfangsmikið og kostnaðarsamt en Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafa lýst því yfir að þær muni njóta góðs af þessu. Mig langar því að spyrja ráðherrann hvort hún viti hvað það gæti kostað.