149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

Schengen-samstarfið.

566. mál
[16:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu um skýrsluna sem ég hef kynnt um Schengen-samstarfið. Ég fagna því sérstaklega að mér hefur fundist ákveðinn samhljómur í máli allra hv. þingmanna um árangur og mikilvægi þess að taka þátt í Schengen-samstarfinu fyrir utan hv. þingmenn Miðflokksins, mér fannst ég greina einhverjar efasemdir hjá þeim um þetta samstarf. Það var kallað eftir kostnaðargreiningu og öðru sem sjálfsagt er að halda til haga þótt svona samstarf verði ekki bara metið í krónum og aurum.

Mér er ljúft og skylt að nefna það t.d. að framlag til Íslands frá Schengen-ríkjunum hefur verið á árunum 2014–2020 um 16,5 milljónir evra. Á sama tíma greiðir Ísland fyrir þátttöku í samstarfinu ekki nema 1 milljón evra á ári. Við höfum því fengið töluvert meira fyrir samstarfið í krónum talið en við leggjum inn í það. Þeir peningar eru auðvitað greiddir á grundvelli verkefna sem við tökum fyrir hér, m.a. vegna skuldbindinga okkar og afleiðinga af Schengen-úttektum þar sem bent hefur verið á ýmislegt sem betur má fara. Það á ekki bara við Ísland heldur öll ríkin sjálf sem eru að taka til í sínum ranni við landamæravörslu og við leggjum mikla áherslu á að geta uppfyllt þessar kröfur. Þess utan er auðvitað alls kyns óbeinn kostnaður sem þarf að hafa í huga. Ég nefni t.d. kostnað við hælisliðinn, sem er nýr liður á fjárlögum og hefur verið um 3 milljarðar undanfarin ár. Stór hluti af þessum kostnaði er til kominn vegna mála sem heyra undir Dyflinnarreglugerðina. Við höfum getað vísað fólki til landa til afgreiðslu mála þar á grundvelli þess, sem við hefðum ekki getað ef við værum ekki í Schengen-samstarfinu. Það má velta því fyrir sér hver kostnaðurinn væri ef við gætum ekki, á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, vísað fólki frá sem er í ólögmætri dvöl hér.

Ég bendi Miðflokksmönnum á að kynna sér þetta aðeins betur og ég efast ekki um að geri þeir það munu þeir kannski líta öðrum augum á þetta samstarf. Þá má heldur ekki gleyma því að aðgangur að þeim gagnagrunni sem við höfum í dag og höfum verið að koma okkur upp og höfum verið að þjálfa okkar löggæslufólk til þess að vinna í yrði fráleitt aðgengilegur okkur utan Schengen enda gilda um það strangar reglur, persónuverndarreglur og annað sem ríki þurfa að lúta til að fá aðgang að þessum gögnum. Þetta er grundvallaratriði fyrir okkur til að geta haft einhverja yfirsýn yfir lögmæta för fólks inn til Íslands að geta flett því upp í þessum gagnagrunnum. Hingað kemur fólk án vegabréfa, án skilríkja. Það þarf að vera hægt að bera kennsl á þetta fólk og það er ekki gert öðruvísi en með gagnagrunnum sem Schengen-ríkin hafa komið sér upp og hafa hjálpað mikið.

Schengen-úttektir halda áfram hjá okkur og það hefur ekkert setið á hakanum hjá okkur hvað þetta varðar. Þó má segja að landamæravarslan hafi haldist í hendur við þróun löggæslunnar almennt. Það stendur til bóta, við höfum gert gangskör að því að bæta landamæravörsluna og hún er líka hluti af þróun löggæslunnar en allt tengist þetta saman. Miðað við umræðuna hér í dag þá á ég ekki von á öðru en að þingheimur sýni því mikinn skilning að það þarf (Forseti hringir.) að standa vörð um landamæri Íslands og löggæsluna í því sambandi líka. Ég vænti áframhaldandi góðs samstarfs við þingið. Ég hef ekki náð að svara öllum fyrirspurnum hér en hvet þingmenn til að (Forseti hringir.) beina fyrirspurnum, munnlegum eða skriflegum, til mín um þessi mál.