149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

vátryggingastarfsemi og vátryggingasamstæður.

632. mál
[17:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi og vátryggingasamstæður. Með lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, og lögum um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017, var meginefni tilskipunar nr. 2009/138/EB, um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga, innleitt í íslenskan rétt. Þessi tilskipun hefur gengið undir því enska heiti „Solvency II“.

Í báðum tilfellum er ráðherra heimilað að setja reglugerðir og Fjármálaeftirlitinu heimilað að setja reglur. Um er að ræða heimildir til að innleiða tilteknar reglugerðir Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þessum heimildum. Annars vegar er lögð til breyting í tilefni af athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA vegna innleiðingar á reglugerðum ESB um tæknilegar upplýsingar fyrir útreikning á vátryggingaskuld vegna ársfjórðungslegra gagnaskila til Fjármálaeftirlitsins. Í frumvarpinu er lagt til að Fjármálaeftirlitið gefi út reglur sem innleiða munu þessar reglugerðir ESB.

Hins vegar er lagt til að ráðherra verði heimilað að setja reglugerð um málsmeðferð sem fylgja skal við samþykki á umsókn um aðlögun vegna samræmingar. Einnig að Fjármálaeftirlitið setji reglur um ferli vátryggingasamstæðu við gerð skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og um form skýrslunnar.

Frumvarpið hefur hvorki fjárhagsleg né efnahagsleg áhrif þar sem eingöngu er um tæknilegar lagabreytingar að ræða.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.