149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur.

636. mál
[17:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur. Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð ESB 2015/751 um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, sem tekin var upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið 8. febrúar sl., verði veitt lagagildi hér á landi. Með reglugerðinni eru sett hámörk á svonefnd milligjöld sem færsluhirðar greiða kortaútgefendum vegna notkunar neytendagreiðslukorta. Þessi hámörk eru 0,2% af fjárhæð greiðslu vegna debetkorta og 0,3% vegna kreditkorta. Ætla má að lækkun milligjaldanna skili sér í lækkun þeirra þjónustugjalda sem færsluhirðar krefja söluaðila um sem ætti að sama skapi að leiða til lægra vöruverðs, söluaðilum og neytendum til hagsbóta.

Auk hámarkanna eru í reglugerðinni margvíslegar viðskiptareglur sem ætlað er að auka gagnsæi um gjaldtöku, efla samkeppni og stuðla að samþættingu greiðslukortamarkaða þvert á landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins. Leyfi til að gefa út greiðslukort eða veita færsluhirðingarþjónustu skal ekki takmarka við tiltekin svæði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Mælt er fyrir um aðgreiningu greiðslukortakerfa og vinnsluaðila til að auka samkeppni í úrvinnslu greiðslna. Óheimilt verður að meina útgefendum korta að bjóða neytendum að hafa fleira en eitt greiðslukortamerki á sama greiðslukorti. Færsluhirðum er gert að sundurliða þjónustugjöld vegna mismunandi greiðslukorta. Óheimilt verður að skylda söluaðila til að taka við öllum greiðslukortum sem tilheyra sama greiðslukortakerfi þrátt fyrir að sum þeirra séu dýrari en önnur. Söluaðili mun þannig t.d. getað tekið við ódýrum debetkortum en ekki dýrum kreditkortum kjósi hann svo. Óheimilt er að banna söluaðilum að upplýsa neytendur um kostnað við notkun greiðslukorta og beina neytendum að ódýrari greiðslukortum.

Í frumvarpinu er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með lögunum utan ákvæðis um merkingar söluaðila um viðtöku korta sem lagt er til að Neytendastofa hafi eftirlit með. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið eða Neytendastofa geti lagt stjórnvaldssektir á einstaklinga og lögaðila sem brjóta gegn efnisákvæðum laganna. Heimild til að leggja á hæfilegar stjórnvaldssektir vegur upp von um ábata af brotum gegn ákvæðunum og hefur þannig nauðsynleg varnaðaráhrif.

Í reglugerðinni er heimild til að ákveða lægra hámark á milligjöld vegna innlendra debetkortafærslna en 0,2%. Heimildin tekur mið af því að í sumum aðildarríkjum Evrópusambandsins voru milligjöld vegna innlendra debetkortafærslna lægri. Það á ekki við hér á landi. Í ljósi örrar þróunar smágreiðslumiðlunar um þessar mundir, m.a. vegna breytinga á tækni og regluverki, hef ég ákveðið að leggja til að innan tveggja ára frá gildistöku frumvarpsins verði lagt mat á það hvort tilefni sé til að nýta heimildina hér.

Frumvarpið var samið af starfshópi með fulltrúum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Starfshópurinn hafði samráð við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Neytendastofu sem gerðu ekki athugasemdir við að Neytendastofu væri falið eftirlit með ákvæði um merkingar söluaðila um viðtöku korta.

Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum lagasetningar voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í september sl. en engar umsagnir bárust. Drög að frumvarpi og endanlegt mat á áhrifum lagasetningar voru birt í samráðsgáttinni í janúar sl. Ein umsögn barst frá Samtökum verslunar og þjónustu sem lýstu stuðningi við málið.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum árétta að lögfesting þessa frumvarps er talin líkleg til að lækka kostnað neytenda og söluaðila og auka gagnsæi og samkeppni á greiðslukortamarkaði. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.