149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[17:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Með frumvarpinu er lögð til lækkun á því iðgjaldi sem viðskiptabankar og sparisjóðir greiða til innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Lagt er til að almenni hluti iðgjaldsins lækki úr 0,225% af gjaldstofni í 0,16% á ársgrundvelli og að lækkunin taki gildi á fyrsta gjalddaga vegna ársins 2019, sem er 1. júní næstkomandi.

Frumvarp þetta felur ekki í sér innleiðingu á Evrópureglum heldur er aðdragandi þess einkum sá að í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefur átt sér stað mikil endurskoðun á þeirri lagaumgjörð sem gildir á fjármálamarkaði. Ég hef á undanförnum árum flutt fjölmörg lagafrumvörp á Alþingi þar sem lagðar hafa verið til breytingar á lögum sem ætlað er að stuðla að heilbrigðari rekstri fyrirtækja á fjármálamarkaði og tryggara eftirliti með starfseminni.

Meðal þess sem hefur verið til skoðunar í ráðuneytinu undanfarin ár er löggjöf um innstæðutryggingar og þá ekki síst í samhengi við nýjar Evrópureglur um skilameðferð fjármálafyrirtækja. Ég mun á þessu ári leggja fram frumvarp til laga um lögfestingu efnisatriða Evróputilskipunar 2014/59 um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja. Helsta markmið tilskipunarinnar er að koma í veg fyrir erfiðleika eða áföll fjármálafyrirtækja og ef til þeirra kemur að lágmarka neikvæðar afleiðingar þeirra með því að tryggja áframhaldandi kerfislega mikilvæga starfsemi og um leið takmarka hættu á að erfiðleikar fyrirtækjanna kalli á framlög úr ríkissjóði.

Fyrsti hluti þessa nýja regluverks um endurreisn og skilameðferð var innleiddur í íslenskan rétt vorið 2018 og unnið er að innleiðingu þess hluta sem fjallar um undirbúning og framkvæmd skilameðferðar. Sterkt samspil er á milli ákvæða tilskipunarinnar og reglna um innstæðutryggingar því að þar er gengið út frá samspili nýtingar á fjármunum tveggja sjóða, þ.e. innstæðutryggingarsjóðs og nýs fjármögnunarfarvegs skilasjóðs sem skylt er að setja á fót samkvæmt tilskipuninni um endurreisn og skilameðferð.

Fjármunir Tryggingarsjóðs eru núna einungis ætlaðir til endurgreiðslu til innstæðueigenda vegna falls lánastofnunar. Það mun taka breytingum þegar innleiddar hafa verið Evrópureglur um endurreisn og skilameðferð og innstæðutryggingar. Í breyttu umhverfi verður þannig gert ráð fyrir tiltekinni aðkomu innstæðutryggingarsjóðs í tilviki skilameðferðar fjármálafyrirtækja auk aðkomu skilasjóðs sem skal tryggja skammtímafjármögnun vegna skilameðferðar.

Markmið frumvarpsins sem ég mæli fyrir nú er að breyta iðgjaldagreiðslunum til Tryggingarsjóðs til samræmis við fyrirsjáanlegar breytingar á reglu- og eftirlitsumhverfi og eignastöðu sjóðsins og vænta ávöxtunar af eignum hans. Fjárhagsleg staða íslenska tryggingarsjóðsins er sterk og í árslok 2018 námu heildareignir innstæðudeildar hans um 38,6 milljörðum kr.

Árleg iðgjöld aðildarfyrirtæki að sjóðnum, þ.e. viðskiptabanka og sparisjóða, voru samtals um 3,5 milljarðar kr. á árinu 2018. Við mat á æskilegri stærð sjóðsins verður að horfa til þess að þegar nýjar reglur um endurreisn og skilameðferð hafa tekið gildi muni þeir viðskiptabankar sem teljast kerfislega mikilvægir verða teknir til skilameðferðar ef þeir lenda í alvarlegum rekstrarvanda. Rekstrarerfiðleikar þeirra ættu því ekki að reyna á vernd Tryggingarsjóðs nema að mjög takmörkuðu leyti.

Í því samhengi tel ég rétt að minna á að allir stóru bankarnir þrír á Íslandi hafa verið skilgreindir kerfislega mikilvægir. Ég tel rétt að taka fram að ég á von á því að fyrirkomulag iðgjalda til Tryggingarsjóðs kunni að taka frekari breytingum á komandi misserum vegna innleiðingar hins nýja regluverks um skilameðferð fjármálafyrirtækja og þá einkum vegna uppbyggingar skila sjóðsins.

Í því samhengi hef ég til sérstakrar skoðunar hvort tilefni er til að nýta hluta af eignum Tryggingarsjóðs til að byggja upp lágmarkseign skilasjóðs. Samkvæmt Evrópureglum skal lágmarkseign skilasjóðs vera orðin 1% af tryggðum innstæðum árið 2027 og er þá miðað við 100.000 evra tryggingavernd. Miðað við núverandi stöðu væri lágmarkið ríflega 8,5 milljarðar íslenskra króna.

Ég vil taka sérstaklega fram að helstu áhrif frumvarpsins á aðildarfyrirtæki Tryggingarsjóðs eru lægri gjöld. Það ætti að skapast svigrúm hjá þeim til að bjóða viðskiptavinum sínum betri kjör. Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi er bent á að miklar álögur á bankakerfið á Íslandi eigi þátt í háum kostnaði neytenda. Samtök fjármálafyrirtækja hafa ítrekað bent á þetta atriði á undanförnum árum. Með frumvarpinu er stigið ákveðið skref í þá átt að lækka þær álögur og ég geng út frá því að við munum sjá þess stað við fyrsta tækifæri að lækkunin skili sér til neytenda.

Að lokum vil ég segja að frá því að áform um framlagningu frumvarpsins voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í janúar á þessu ári. Bárust þrjár umsagnir um áformin og er umfjöllun um þær í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.