149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[17:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins varðandi tilefni frumvarpsins. Það er má segja að tilefni frumvarpsins séu ítrekaðar ábendingar, sérstaklega frá smærri fjármálafyrirtækjum. Ég vil nefna sparisjóði í því sambandi sem benda á að starfsemi þeirra sé afskaplega einföld og gegnsæ og felist fyrst og fremst í því að taka við innlánum og veita útlán og að hvers kyns gjaldtaka dragi úr samkeppnishæfni sparisjóðanna vegna þess að þeir hafa tiltölulega einfalt tekjumódel.

Í því sambandi hefur komið fram það sjónarmið að innstæðutryggingarsjóðurinn sé vel fjármagnaður eins og sakir standa. Jafnvel hefur heyrst að sumir telji ekki þörf á því að vera að innheimta frekar í sjóðinn. Hér er farin sú leið að lækka iðgjaldið og það á að geta leitt til þess að vaxtamunur dragist saman. Það er mjög mikilvægt að það gerist og að menn séu samkvæmir sjálfum sér um það efni.

Hins vegar er ekki hægt að koma fram með mál af þessum toga án þess að minnast á það sem er í farvatninu og taka fram að við teljum að hið nýja fyrirkomulag sem hér er lagt upp með samræmist ágætlega. Ég sé vel fyrir mér að við gætum ráðstafað hluta af tryggingarsjóðnum til að byggja upp þennan skilasjóð þegar að því kemur. Ég ætla aðeins að koma að öðrum atriðum sem hv. þingmaður spurði um hér í síðara andsvari.