149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[17:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég er þeirrar skoðunar að sjóðurinn gegni ákaflega mikilvægu hlutverki. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það beri að fara varlega í að slá af kröfum um uppbyggingu hans og að við þurfum að taka ákvarðanir að yfirlögðu ráði um breytingar á iðgjaldinu. Ég tel að í frumvarpinu sé mjög vel gerð grein fyrir því að sjóðurinn stendur vel þegar við horfum til allra þeirra lagabreytinga sem þegar hafa verið gerðar. Ég nefni þar t.d. gerbreyttar kröfur um eigið fé bankanna. Ég nefni sömuleiðis það sem gert hefur verið til að hafa betri yfirsýn yfir þjóðhagsvarúð. Ég nefni fjármálastöðugleikaráð í því efni, þau stjórntæki sem við búum yfir í dag til þess að hafa betri tilfinningu fyrir því sem er að gerast í bankakerfinu. Þessar varnir eru mikilvægar.

Ég nefni sömuleiðis þá staðreynd að við höfum innleitt reglu um forgang innstæðna við áföll. Allt eru þetta fremri varnir á innstæðutryggingarsjóðnum. Þannig má segja að við höfum dregið úr líkunum á því að það muni nokkurn tíma reyna á sjóðinn. Það verður að taka með í reikninginn. Ég tel að mikilvægt sé að lækka iðgjaldið. Iðgjald verður áfram til staðar. Það mun áfram byggja upp sjóð, en ég tel að þetta sé fullnægjandi. Þetta þolir alveg umræðu og skoðun.

Varðandi endurheimt ríkisins er ég alveg sammála hv. þingmanni að það var langt í frá sjálfgefið að ríkið myndi taka á sig að fjármagna endurreisn fjármálakerfisins, yfirfærslu innstæðna og taka að sér, t.d. í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur og annarra slíkra fjármálastofnana, að fjármagna það sem upp á vantaði. Það hefði alveg mátt sjá fyrir sér að innstæðutryggingarsjóðurinn eða ríkið tæki það með öðrum hætti til baka, en niðurstaðan er þó sú að allur beinn kostnaður ríkisins hefur verið endurheimtur þótt það hafi gerst með öðrum hætti.