149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[17:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja um það að þetta skili sér í betri kjörum bankanna að það er einkum þrennt að mínu áliti sem við getum gert til þess að draga úr vaxtamun á Íslandi og það eru allt atriði sem stjórnvöld hafa stjórn á og skipta máli og er m.a. fjallað um í hvítbókinni sem nýlega kom út.

Það er í fyrsta lagi bankaskatturinn. Hann er sérstaklega tilgreindur í skýrslunni, hvítbókinni. Ég tel augljóst, og það er nokkuð sláandi tafla í hvítbókinni um samanburð á skattlagningu fjármálafyrirtækja á Norðurlöndunum, hversu miklu meiri og hærri skatta við leggjum á fjármálafyrirtækin. Við getum lækkað hann og þannig skapað svigrúm fyrir bankana til að starfa þannig að þeir séu með lægri álögur í formi vaxta og gjalda. Í öðru lagi eru það eiginfjáraukarnir sem við stýrum og þeir geta haft mjög mikil áhrif ásamt með áhættuvoginni sem er ákvörðunaratriði Fjármálaeftirlitsins. Þetta skiptir miklu máli. Síðan í þriðja lagi eru það þættir eins og þessi, þ.e. innstæðutryggingaiðgjaldið. Ég er alveg sannfærður um það að á markaði þar sem samkeppni ríkir þá eiga svona breytingar að skila sér til neytenda.