149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[17:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, vonandi er það tilfellið að þetta muni skila sér en auðvitað vitum við það ekki fyrir fram. Mig langar að ítreka fyrri spurninguna sem mig grunar að ráðherra hafði ekki náð, hvort það væri flötur á því að fara í meiri lækkun eða hvort það hefði verið rætt í ráðuneytinu. Auðvitað eru þetta ekki í eðli sínu skattar í þeim skilningi heldur er í rauninni um iðgjöld að ræða, má kalla það, og þau skila sér ekki beint í ríkissjóð eins og aðrir skattar.

Svo er kannski önnur vangavelta sem ég veit ekki hvort hafi verið eitthvað rædd í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en það er hvort menn hafi lagt eitthvert mat á það hversu mikil áhrif þessi lækkun geti haft. Þetta er um 1 milljarður í lækkun á þessum iðgjöldum. Hafa menn lagt eitthvert mat á það innan ráðuneytisins hve mikil áhrifin gætu verið t.d. á vaxtaprósentur eða vaxtamun í fjármálafyrirtækjum? Þá er ég að meina í stóra samhenginu, það er heildarprósentulækkanir, annaðhvort til hækkunar á innlánsvöxtum eða lækkunar á útlánsvöxtum.