149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

bindandi álit í skattamálum.

638. mál
[17:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um bindandi álit í skattamálum. Með frumvarpinu er stefnt að því að gildistími bindandi álita sem ríkisskattstjóri gefur út verði fimm ár.

Í lögum er vissar takmarkanir á gildissviði bindandi álita, t.d. kunna lög að hafa breyst við tíma sem veldur því að ekki verði lengur stuðst við bindandi álit. Ýmislegt fleira getur breyst sem veldur því að óheppilegt þykir að hafa álitin ótímabundin, fyrir utan þær takmarkanir sem nú þegar er að finna í lögunum.

Sjónarmið geta breyst verulega. Er ég þá sérstaklega að vísa til þess að einhver uppsöfnuð reynsla getur komið inn í spilið sem leiðir til þess að bindandi álit stenst ekki tímans tönn. Um það er fjallað í greinargerðinni og lagt til að í stað þess að bindandi álit sé ótímabundið, fyrir utan þær takmarkanir sem ég hef aðeins vikið að, verði það með gildistíma í fimm ár.

Mig langar til að nefna mikilvægi þess að áfram sé hægt að sækja bindandi álit með sem skjótvirkustum hætti. Það er mikilvægt að skattkerfi okkar geti veitt þá leiðsögn sem ætlunin er með bindandi álitum, að þeir sem hagsmuna eiga að gæta geti fengið svör. Til þess er fyrirbærið bindandi álit hugsað, að greiða fyrir ákvarðanatöku. Ég nefni það vegna þess að þetta er eiginlega hinn endi þessa máls, þ.e. að til staðar sé skilvirkt úrræði sem hægt er að reiða sig á þegar upp koma álitamál sem varðað geta mikla hagsmuni og æskilegt er að til séu skýr svör þegar engum fordæmum er til að dreifa til þess að byggja ákvarðanatöku á.

Ég segi: Þetta er hinn endi málsins, vegna þess að þetta er í raun og veru upphafið. Eftir að bindandi álit hefur verið fengið getur það verið til leiðsagnar fyrir aðra sem hagsmuna eiga að gæta, aðra en þann sem óskaði eftir álitinu í upphafi. Út frá því sjónarmiði erum við að þrengja að þessu tæki, bindandi áliti, sem gagnast hefur til skilvirkrar ákvarðanatöku.

Það er kannski helsti gallinn við að fara þessa leið en hann er að mínu mati veginn upp af hinu sjónarmiðinu, að það geti verið óvarlegt að láta bindandi álit standa óhreyft ótímabundið — og ekki auðvelt að tína til í lögum öll þau atriði sem máli geta skipt fyrir gildissviðið, eins og gert er í dag. Þar er leitast við að ná saman því sem augljóslega getur breyst og kippt forsendum undan bindandi áliti.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að grunngjald sem greitt er til ríkisskattstjóra fyrir gerð bindandi álits hækki en gjaldið hefur verið óbreytt í 10 ár, frá árinu 2009.

Að lokum eru lagðar til breytingar á orðalagi nokkurra ákvæða sem taka mið af þeirri skattkerfisbreytingu sem varð þegar landið var gert að einu skattumdæmi í árið 2010. Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa fjárhagsleg áhrif á afkomu ríkissjóðs, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Virðulegi forseti. Ég legg að þessu sögðu til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.