149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

88. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég tek fyllilega undir með honum og er þakklát fyrir að fleiri séu á þeim vagni að afnema þetta stimpilgjald. Það er rétt að samkvæmt ríkisreikningi, alla vega fyrir árið 2016, voru tekjur ríkissjóðs af öllu stimpilgjaldi 4,9 milljarðar.

Þetta er auðvitað hægt að gera í skrefum. Þetta er blanda af alls konar fasteignaviðskiptum, viðskiptum vegna skipa og annars. Ég held að hér sé tækifæri til að taka þrjú frumvörp saman, mál mitt sem ég var að mæla fyrir, frumvarp hv. þm. Teits Björns Einarssonar um skip og frumvarp hv. þm. Þorsteins Víglundssonar, og gera plan um að afnema stimpilgjald. Við hljótum að skilja að það gerist ekki með því að smella fingri strax um næstu áramót. En getum við ekki falið efnahags- og viðskiptanefnd að fara yfir þau mál og gera áætlun um að fella gjaldið niður í þrepum? Það yrði til þess að hér byggi fólk ekki lengur við þann úrelta gjaldstofn sem stimpilgjöldin eru, þann úreltan skatt. Það er alveg ljóst að þetta mun létta byrðum af fólki og ég tel að við hv. þingmaður séum sammála um það.