149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

88. mál
[18:07]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrir svarið. Í sjálfu sér má segja að nafngiftin á þessum skattstofni hafi á einhverjum tímapunkti orðið í hugum manna einhvers konar hjáræna eða tilefni til kímni, þess vegna sé hann eitthvað skrýtinn eða skemmtilegur. En auðvitað er hann ekkert annað en ein leið til gjaldtöku fyrir ríkið.

Fyrst þingmaðurinn talar um mikilvægi þess að hafa valfrelsi má segja að fyrst ríkið tekur gjald þarna, sem er í því tilfelli upp á rúmlega 2 milljarða á ári, sé það ein leið til að hjálpa ríkinu til þess til að mynda að auka stuðning við leigjendur eða auka stuðning við önnur úrræði á fasteignamarkaði.

Í mínum huga verður að taka tekjumyndun ríkissjóðs í heildarsamhengi og mér finnst svolítið vanta upp á að flutningsmenn frumvarpsins bendi á, úr því að verið er að leggja til að ríkið dragi við sig í tekjum upp á 2–2,5 milljarða á ári, hvernig ríkið ætli þá að draga saman í útgjöldum til að mæta því.

Varðandi það sem hefur komið svolítið upp í umræðunni, að þetta sé skrýtin skattheimta sem sé ekki víða annars staðar í heiminum, þá hef ég tekið lán á fasteignamarkaði annars staðar í heiminum, þ.e. í Bandaríkjunum, og þar er tekið sambærilegt gjald. Það heitir bara eitthvað annað og er borgað til lánastofnunarinnar en ekki til ríkisins.