149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

88. mál
[18:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Örstutt ræða í staðinn fyrir andsvar því að það sem ég vil segja komst ekki alveg fyrir í andsvari. Það sem ég hef helst við stimpilgjaldið að athuga er að það er prósentustimpilgjald. Miðað við hvernig íbúðaverð hefur þróast að undanförnu hefur stimpilgjaldið hækkað gríðarlega á undanförnum árum.

Hluti af séreignarstefnunni á Íslandi er bundinn við lífeyriskerfið. Ef fólk á ekki skuldlaust þak yfir höfuðið þegar það fer á ellilífeyri, eftirlaun, dugar lífeyrir einfaldlega ekki til framfærslu, ekki ef fólk þarf líka að borga af lánum að einhverju marki eða leigu eða því um líkt. Séreignarstefnan er því í raun hluti af lífeyriskerfinu okkar. Þar af leiðandi er stimpilgjald ákveðinn þröskuldur fyrir mjög marga til að klára uppsöfnun fyrir lífeyriskerfið, sérstaklega þegar það hefur hækkað eins mikið og það hefur gert á undanförnum árum.

Ég tek tvímælalaust undir að þetta gjald er mjög skrýtið, enda stendur í lögum um stimpilgjald, með leyfi forseta:

„Greiða skal í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögum þessum […] Gjaldskylda stofnast þegar gjaldskylt skjal er undirritað.“

Fyrir mér hljómar þetta rosalega mikið eins og einhvers konar þjónustugjöld fyrir skjalaumsýslu, en það getur ekki verið því að það má einungis svara kostnaði samkvæmt skilgreiningu um þjónustugjald. Þetta er einhvers konar undarleg skattheimta á það að búa til skjal, sem kostar miklu minna en innheimt er upp á 0,8% af verði heillrar íbúðar. Það kostar ekki mikið að búa til skjal og allt í kringum það. Ég geri athugasemd hvað þetta varðar.

Nú kemur fjárlaganefndarmaðurinn inn í staðinn fyrir efnahags- og viðskiptanefndarfólkið sem var hér áðan. Þá velti fyrir ég mér lögum um opinber fjármál og hvort ekki væri aðeins eðlilegra ferli að hafa þetta inni í einhvers konar þingsályktun þar sem því væri vísað til ríkisstjórnar að taka þetta inn í fjárlagagerðarferlið, þ.e. taka inn í fjármálaáætlun ákveðin tilmæli til ríkisstjórnar. Þá gæti efnahags- og viðskiptanefnd kannski tekið stimpilgjaldafrumvörpin þrjú sem eru í gangi og gert þingsályktun um að ríkisstjórnin setti inn í fjármálaáætlun til næstu ára áætlun um afnám stimpilgjaldsins í þeim skrefum sem nefnd hafa verið, svo að ég komi með það sjónarhorn á núverandi lagafyrirkomulag, sem er eitthvað við gætum kannski tamið okkur í framtíðinni. Mín tilfinning er alla vega sú að það væri rétt ferli miðað við núgildandi lög um opinber fjármál.