149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

rafræn auðkenning og traustþjónusta fyrir rafræn viðskipti.

634. mál
[15:48]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Með frumvarpinu eru lögð fram ný heildarlög um rafræna auðkenningu, rafrænar undirskriftir og aðrar tegundir traustþjónustu.

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 910/2014, um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðnum, og um niðurfellingu á tilskipun 1999/93/EB. Helstu markmið frumvarpsins eru að auka traust í rafrænum viðskiptum með því að kveða á um réttaráhrif og kröfur til rafrænna auðkenningarleiða og traustþjónustu og að tryggja örugga rafræna auðkenningu og sannvottun til aðgangs að nettengdri þjónustu yfir landamæri á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um gagnkvæma viðurkenningu yfir landamæri á rafrænum auðkenningarleiðum sem tilheyra tilkynntri rafrænni auðkenningarskipan. Með frumvarpinu er stefnt að því að einstaklingar og lögaðilar geti notað tilkynnta rafræna auðkenningarskipan í eigin ríki á EES-svæðinu til þess að auðkenna sig gagnvart nettengdri þjónustu opinbers aðila í öðru ríki þar sem krafist er rafrænnar auðkenningar og sannvottunar.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um að ráðherra geti tilkynnt um slíka rafræna auðkenningarskipan til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Með frumvarpinu er einnig settur almennur lagarammi um notkun traustþjónustu á borð við rafrænar undirskriftir, rafræna tímastimpla, rafræn innsigli og kveðið á um kröfur sem slík traustþjónusta þarf að uppfylla samkvæmt lögunum. Ákvæði frumvarpsins stefna að því að tryggja hátt öryggisstig sérhverrar rafrænnar traustþjónustu sem hefur fullgilda stöðu. Til að tryggja að traustþjónustuveitendur og þjónusta sem þeir veita uppfylli kröfur laganna og geti talist fullgildir traustþjónustuveitendur þurfa þeir að undirgangast samræmismat og skila eftirlitsstofnun samræmismatsskýrslu.

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um réttaráhrif traustþjónustu. Mælt er fyrir um þá meginreglu að ekki skuli hafna því að traustþjónusta fái réttaráhrif og sé viðurkennt sem sönnunargagn fyrir dómi einungis af þeirri ástæðu að hún sé á rafrænu formi eða að hún uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru til fullgildrar rafrænnar traustþjónustu. Sem dæmi um önnur réttaráhrif má nefna ákvæði frumvarpsins um að fullgild rafræn undirskrift skuli hafa sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift og að slík undirskrift skuli viðurkennd í öðrum ríkjum á EES-svæðinu.

Í frumvarpinu er lagt til að Neytendastofa fari með eftirlit með traustþjónustuveitendum samkvæmt lögunum. Neytendastofa hefur farið með eftirlit á grundvelli gildandi laga um rafrænar undirskriftir og er reynsla og þekking til staðar hjá stofnuninni til að sinna áfram eftirlitsverkefnum á þessu sviði. Kostnaður vegna eftirlits Neytendastofu er lítill, borið saman við þjóðhagslegan ávinning af almennri útbreiðslu rafrænna lausna í stjórnsýslu og viðskiptalífi.

Með frumvarpinu er stigið mikilvægt skref til að auka notkun stafrænnar tækni í stjórnsýslu og viðskiptum. Verði frumvarpið að lögum verður traustþjónustuveitendum gert kleift að bjóða neytendum og fyrirtækjum breiðara þjónustuframboð sem opnar möguleika í nýsköpun og þróun rafrænna lausna. Útbreidd notkun á öruggum rafrænum lausnum getur víða sparað útgjöld, bætt aðgengi að þjónustu og verið til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.