149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[15:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta áhugavert mál og þar sem ég sit í fjárlaganefnd velti ég alltaf fyrir mér aurunum. Maður vonast a.m.k. til þess að við lendum ekki í miklum vopnuðum átökum á landinu okkar góða. Eins og bent er á hér í lokin eigum við hins vegar við annað að etja sem gæti orsakað það að menningarminjar og annað slíkt myndi glatast, þ.e. náttúruhamfarir. Það þekkjum við, jarðskjálfta, eldgos og flóð. Það sem mér finnst sérstaklega eftirtektarvert, burt séð frá því hvort við göngumst undir þennan samning eður ei, er að í gangi þyrfti að vera einhver skráning á menningarminjum. Ég játa bara að ég veit ekki hvernig það er hjá hinu opinbera, hvort til er einhver einn heildarlisti, ég stórefa það, yfir alls konar verk sem eru til staðar í opinberum byggingum og öðru slíku.

Svo er auðvitað líka verið að tala um handritin okkar, minjastaði og ýmislegt fleira þannig að mér finnst afskaplega mikilvægt, hvort sem við getum gert þetta með þessum hætti eða ekki, að þetta verði gert. Það kostar allt peninga, hvort sem við gerum það í gegnum þennan samning eða hvernig sem við myndum gera það. Eins og hér kemur fram eru 133 ríki aðilar að þessum Haag-samningi og 110 aðilar að fyrsta viðauka og svo 81 ríki að öðrum viðauka. Síðan erum við hér, ásamt Andorra, Moldóvu og Möltu, einu aðilarnir í Evrópu sem eru ekki aðilar. Öll Norðurlöndin í kringum okkur eru það þannig að það er áhugavert að vita, og kannski er hægt að sækja þær upplýsingar til Norðurlandanna, eða bara beint, ég þekki það ekki, hvernig þessu er fyrir komið þar. Ef við ákvæðum að ganga inn í þennan samning væri gott að vita hvað við þyrftum að leggja til, hvers konar mannskap eða fjármuni, hvað þetta myndi kosta.

Ég vildi aðeins koma inn á þetta af því að mér finnst þetta vera áhugavert mál. Maður veltir þessu kannski ekki fyrir sér dagsdaglega en þetta er ómetanlegt. Við sem höfum áhuga á menningu, minjum, handritum og öðru slíku sjáum bara að manni finnst þetta alltaf jafn ómetanlegt þegar maður fer að skoða það. Ég nefni sýninguna á handritunum í haust, minnir mig, frekar en síðasta vor, sem mér fannst stórkostleg. Þetta er eitt af því sem verður aldrei metið til fjár. Þegar við þurfum að forgangsraða einhverju þurfum við kannski að geta gert okkur grein fyrir umfanginu og hvað það muni kosta. En ég ætla að láta þetta duga að sinni. Ég vildi aðeins koma hingað upp og segja nokkur orð um þetta.