149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[16:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var áhugavert og mikilvægt hvernig hv. þingmaður dró fram í andsvari sínu við ræðu mína hér áðan annað þingmál sem er síðar á dagskránni, sem snýst um að kaupa ekki vörur frá hernumdum svæðum Palestínu. En þetta er einmitt í raun það sem stríðsátök ganga svo oft út á, annars vegar að ná yfirráðum yfir auðlindum sem þjóðir búa yfir og hins vegar að ná tökum á eða komast í ráðandi stöðu yfir minnihlutahópum á svæðinu. Það er einmitt gert með því að kúga og gera lítið úr og gera fólki erfitt fyrir að stunda menningu sína. Það er partur af stríðsátökum, því miður. Þess vegna skipta samningar eins og þessi máli.

Eins og ég sagði í ræðu minni hér áðan um að fá upp þessa stóru og breiðari umræðu um það hvaða skelfing gerist í stríðsátökum er svo mikilvægt að þjóðir heims taki sig saman og gerist aðilar að samningum eins og þessum, því að það sendir þó einhver skilaboð út í alheiminn um að fólki hugnist ekki það sem gerist í stríði. Það er einmitt með því að almenningur rís upp og andæfir stríðsátökum sem (Forseti hringir.) ráðamenn hlusta eitthvað og ætla að hafa einhver áhrif.