149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[16:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að nota þetta síðara andsvar til þess einmitt að ræða um mikilvægi þess að vera aðilar að samkomulögum, að samningum sem gerðir eru meðal þjóða heims til þess að reyna að vinna gegn og draga úr því að hernaðarátök eigi sér stað og að draga úr þeirri hörmung og því tjóni sem almennir borgarar og samfélög verða fyrir í þeim málum. Það kann að vera að einhverjum finnist þetta vera tæknileg leið í raun að gerast aðilar að eða að fullgilda samkomulag. Það er það auðvitað upp að vissu marki, en þó hefur náðst ákveðinn árangur á heimsvísu með því einmitt að gera það.

Mig langar bara að nefna í þessu samhengi alþjóðasamninga á borð við þá að banna jarðsprengjur, alþjóðasamninga um að banna notkun á sýkla- og efnavopnum. Nú er ég með þingmál í gangi sem gengur út á það að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um að banna kjarnorkuvopn.

Það er einmitt í gegnum alþjóðasamninga sem hægt er að koma afstöðu sinni og viðhorfi til stríðsátaka á framfæri, og aftur leiðir það til þess að mér finnst að þetta mál eigi að fá fulla skoðun, hvort Ísland eigi ekki að fullgilda þennan samning.