149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

107. mál
[17:03]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að setja á langar tölur. Ég styð þetta mál enda er ég á því. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, 1. flutningsmaður, fór afskaplega vel yfir málið áðan og ég hef engu við það að bæta.

Ég tel að þarna sé á ábyrgan hátt verið að bregðast við umræðu og ákalli í þjóðfélaginu um að þingmenn líti í eigin barm, þingmenn taki það alvarlega að mælingar á trausti í garð þingsins sýna hneykslanlega mikið vantraust í garð þings og þingmanna, svo ekki verður við unað. Ég held að þetta mál sé, með ýmsum öðrum aðgerðum, til þess fallið að vera upphaf að einhvers konar vegferð í þá átt að þingmenn leitist við að endurvekja þótt ekki væri nema brot af því trausti sem verður að ríkja milli þings og þjóðar í lýðræðisríki.

Þetta er sérlega viðkvæmt starf og þetta er viðkvæm umræða. Starfið er ekki neinu öðru líkt. Það er mjög sérstakt og almenningur lítur réttilega svo á að þegar kjósandi hefur sett X við einhvern flokk og hefur kosið okkur hingað inn sem fulltrúa sína til að tala fyrir sjónarmiðum sínum, hugsjónum og hagsmunum séum við í vinnu hjá sér, þ.e. í vinnu hjá kjósendum, í vinnu hjá þjóðinni. Okkur ber að hlusta á þjóðina, hlusta á almenning og okkur ber að fara fram með virðingu og bera virðingu fyrir því starfi og því hlutskipti sem við höfum tekið að okkur.

Fólk hefur réttilega gagnrýnt að þingmenn hafi úthlutað sér sporslum, getum við sagt, á borð við þær sem hér eru til umræðu. Um er að ræða greiðslur sem eru ekki nægilega gagnsæjar. Frumvarpið eyðir ákveðinni óvissu um launakjör þingmanna.

Það eru sannarlega rök fyrir því að þingmenn eigi ekki að vera á of lágum launum, að þingmennska eigi ekki að vera láglaunastarf. Ég held að veigamestu rökin fyrir því séu þau að þingmennska eigi ekki að vera einhvers konar hobbí fyrir auðmenn, að fólk sem hefur auðgast og þarf ekki að sinna launavinnu vegna gríðarlega mikilla fjármagnstekna geti þá dundað sér við að sitja á þingi eins og menn gera í bresku lávarðadeildinni, svona til að hafa eitthvað fyrir stafni.

Það er ein hættan. Önnur hætta, sem er kannski ískyggilegri, er sú að þingmenn geti orðið háðir hagsmunaöflum um lífsafkomu sína, þeir geti freistast til þess, séu þeir illa launaðir, að láta alls kyns voldug hagsmunaöfl styrkja sig. Eins og við vitum eru voldug hagsmunaöfl hér á landi sem væru ekki frábitin því að hafa einhverja þingmenn í vinnu hjá sér við löggjafarstörfin.

Það eru svo sannarlega ýmis rök fyrir því að þingmenn eigi að geta notið fjárhagslegs sjálfstæðis meðan þeir sinna þessu starfi. Eigi að síður held ég að hægt sé að ætlast til þess að kjör þingmanna séu ekki bætt með þeim hætti sem þessar kostnaðargreiðslur hafa verið. Ég held raunar að eðlilegast sé að kaup þingmanna sé nægilega hátt til þess að þeir geti sjálfir staðið straum af þeim hugsanlega kostnaði sem af starfinu hlýst, um leið og eðlilegt er að jafna kjör þingmanna eftir því sem ólík búseta og önnur ólík aðstaða kann að valda.

Ég er fyrst og fremst kominn hingað upp til að lýsa yfir stuðningi við málið, enda tel ég að ég sem fulltrúi Samfylkingarinnar og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sem fulltrúi Vinstri grænna séum að vissu leyti arftakar þeirra horfnu flokka sem stóðu fyrir þessi sjónarmið hér árið 1995.