149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

107. mál
[17:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér ræðum við breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna, þ.e. það sem tilheyrir starfskostnaði. Það er nú svo og hefur verið í árafjöld að laun þingmanna hafa verið afar umdeild sama á hvaða tíma það er. Ef þau hafa tekið breytingum hefur alltaf orðið mikil umræða úti í samfélaginu sem er í sjálfu sér af hinu góða. Ég hef staðið með þeim aðgerðum sem hér hefur verið farið í til þess m.a. að gera kjör okkar opinber, þann útlagða kostnað sem þingið og þjóðin ber af því að hafa okkur í vinnu, eins og gert hefur verið. Það er alltaf af hinu góða að auka gagnsæi eins og við mögulega getum. Það má í sjálfu sér segja að frumvarpið sé í þá átt að auka gagnsæi. Þingmenn þurfa að leggja fram öll gögn sem tilheyra starfskostnaði þeirra í staðinn fyrir að fá fastar greiðslur.

Á fyrstu blaðsíðu í greinargerðinni er verið að ræða um lögin frá því 1995, þegar þetta var undir, og þá var verið að ræða hvort greiðslur yrðu skattfrjálsar eða ekki eða hvort endurgreiða ætti þennan starfskostnað samkvæmt reikningum. Í greinargerð með frumvarpinu er sú ráðstöfun að greiða starfskostnað sem fasta fjárhæð mánaðarlega útskýrð með eftirfarandi hætti:

„Fyrirkomulag líkt þessu er viðhaft í þingum nágrannalandanna enda þykir eðlilegt að þingmenn hafi sjálfdæmi innan ákveðins ramma um hvernig fé er ráðstafað í starfskostnað en eigi það ekki undir ákvörðunum embættismanna þingsins eða Stjórnarráðsins.“

Hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson kom inn á sjálfstæði þingmanna til athafna og annað slíkt, að þeir yrðu að vera fjárhagslega sjálfstæðir. Hér er vísað í nágrannalöndin og þingið hefur aflað sér töluverðra upplýsinga um kjör þingmanna annars staðar á Norðurlöndum. Áhugavert væri að gera slíkan samanburð í ljósi þess að þetta var viðhaft á þennan hátt á þessum tíma og rökstuðningurinn er þarna. Ég held að það væri tilvalið fyrir nefndina að taka þetta upp eða óska eftir þessum upplýsingum. Ef þingið hefur ekki þessar upplýsingar, sem mig minnir þó að það hafi, er alla vega hægt að nálgast þær.

Sagan er ágætlega rakin, sérstaklega um orðræðuna og umræðuna sem hefur orðið þegar verið er að breyta kjörum þingmanna, vísað í kjaradóm og ýmislegt fleira. Hér hefur líka komið fram að kjörin voru skert um 150.000 kr., og í sjálfu sér er ágætt að geta gert það til að koma til móts við þær kröfur sem settar voru fram, þó að sumum þyki það ekki nóg. Ég hef þá tilfinningu að það sé oft þannig að þingmenn þyki vera á ofurlaunum. Mér finnst að við eigum ævinlega að taka umræðuna út frá því að hækka laun, þ.e. ekki þingmanna. Þegar við erum að gera samanburð fæst lítið út úr því að skerða kjör okkar stjórnmálamanna. Þeir sem þurfa á raunverulegum kjarabótum að halda fá lítið út úr því. Þess vegna eigum við að styðja við það að lægstu laun verði mannsæmandi.

Hér velti framsögumaður ýmsu upp í tengslum við að hætt verði að greiða þennan 40.000 kr. starfskostnað mánaðarlega í tengslum við það að birta afrit reikninga á upplýsingasíðu Alþingis eins og gert hefur verið með þessar föstu launagreiðslur. Ég held að það geti alveg verið jákvætt. En þingmaðurinn ræddi aðeins að kannski þyrfti síður upptalningu í lagagrein eða í reglugerðargreinum um þetta. Ég er ekki endilega alveg sannfærð um það. Ég held að það geti verið ágætt að vera meðvituð um hvað það er sem flokkast undir það sem draga má frá. Við sem erum á þingi í dag eigum að þekkja það nokkuð vel. Við höfum fengið, eða getum a.m.k. fengið, ágætar upplýsingar hjá þingskrifstofu um það.

En það þýðir kannski — og maður þekkir það sjálfur þegar maður er á ferðalagi um stórt kjördæmi — að þetta gæti ýtt við manni að vera duglegri að taka nótur fyrir ýmsu því sem maður er að leggja út fyrir og einhvern veginn bara gerir, alveg eins og ef maður býður fimm manns í mat í hádeginu í mötuneytinu af því að maður er að funda. Það hefur aldrei hvarflað að manni að taka nótur fyrir því en vissulega er það starfskostnaður.

Ég held að það sé nú betra en ekki, að það kannski ýti við fólki að taka nótur, og ég held að það sé betra að það sé skilgreint eins og gerð er tilraun til að gera hér þar sem talað er um að starfskostnaður nái utan um fundahöld, ráðstefnur, námskeið, bóka- og tímaritakaup, risnu, póstburðargjöld utan skrifstofunnar og fleira sem sambærilegt getur talist. Mér finnst það t.d. eðlilegt, og ég hef gert það, að vera áskrifandi að allmörgum héraðsfréttablöðum í mínu kjördæmi. Það er til þess að halda sjálfri mér upplýstri en líka til að styðja við þá sem eru að gefa þessi blöð út. Mér finnst eðlilegt að gera það á meðan ég starfa sem þingmaður en það er valkvætt. Svo er margt annað sem einhvern veginn telur aldrei og ætlast er til að maður styðji af því að maður er einmitt í þessu starfi. Mér þykir það í raun alveg sjálfsagt. Sumu af því hefur maður aldrei nokkurn tímann látið sér detta í hug að taka nótu fyrir en annað passa ég vel upp á af því að ég legg út fyrir þessum starfskostnaði í hverjum einasta mánuði. Mér hefur í sjálfu sér fundist það vont þegar þingmenn framvísa ekki gögnum yfir það sem þeir sannarlega eru að leggja út fyrir og á að flokkast undir þetta. Það ýtir undir þá hugsun sem hér er reifuð að þetta sé bara launakostnaður, viðbótarlaun, en ekki til þess fallið að standa undir tilteknum kostnaði. En þingmönnum er þetta auðvitað í sjálfsvald sett. Hér er kannski verið að leggja til að breyta því.

Einnig var nefnt að þetta gæti orðið kostnaðarauki fyrir þingskrifstofuna. Ef frumvarpið nær fram að ganga er vissulega einhver sparnaður fólginn í því að ráðherrar falli út. Mér finnst eðlilegt að ráðherrarnir falli út í þessum greiðslum og Stjórnarráðið greiði þann kostnað. Það hefur verið ákveðin togstreita á milli Stjórnarráðs og Alþingis varðandi sumar greiðslur, t.d. í kjördæmavikum. Mér skilst að Stjórnarráðið telji að þá sé ráðherra þingmaður á ferð um kjördæmi og eigi þar af leiðandi að sækja endurgreiðslur til Alþingis. Menn hætta ekkert að vera ráðherrar þótt þeir fari út í kjördæmið sitt. Þeir eru starfandi sem slíkir þannig að mér finnst skakkt að hugsa þetta svona og tel sjálf að þetta sé aðskilið. En það er kannski partur af þessu. Af því að þingmenn eru ráðherrar hefur þetta verið svona. En þessi hluti er alveg kýrskýr í mínum huga, þetta á að vera afgreitt. Stjórnarráðið á að borga fyrir ráðherra og Alþingi borgar fyrir þingmenn, þ.e. meðan ráðherrar eru starfandi sem ráðherrar. Þetta hefur verið lagt til áður eins og rakið er í frumvarpinu, af þingmanni úr okkar röðum forðum, fyrrverandi þingmanni Ögmundi Jónassyni. Einnig er vitnað í Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sem lagði til breytingar á þessum þingfararkostnaði og þingfararkaupi, að þetta yrði fellt brott. Þetta hefur þannig verið í farvatninu ansi lengi. Þetta er hvort tveggja á 120. löggjafarþingi.

Við erum ekkert að ræða þetta í fyrsta sinn og örugglega ekki í það síðasta því að við þekkjum það líka að þingmannamál ná oft ekki fram að ganga í fyrstu atrennu. En ég vona svo sannarlega að málið fái efnislega umfjöllun í nefndinni. Ég ítreka að ég held að það sé áhugavert að skoða upplýsingar sem þingið aflaði til samanburðar á Norðurlöndunum þegar greiðslurnar áttu sér stað, þ.e. þegar kjararáðsúrskurðurinn kom og þegar þetta var í hámæli — í blöðunum var meira að segja birtur ítarlegur samanburður á kjörum þingmanna — og kom í ljós, eins og áður hefur verið rakið, að þó að við séum hér að fjölga fólki til að aðstoða okkur við þingstörfin er langt því frá að það sé líkt því sem er á hinum Norðurlöndunum þar sem hver þingmaður er oft með heila sveit í kringum sig.

Þó að strípuð launakjörin séu svipuð — mig minnir að í einu landinu hafi launin verið aðeins lægri — kemur mjög margt annað til. Það er það sem þarf að horfa á þegar verið er að fjalla um kjör þjóðkjörinna fulltrúa eða sveitarstjórnarfólks ef því er að skipta, þetta eru tímabundin störf og ekki er hægt að taka eitt atriði út úr menginu í slíkum samanburði heldur þarf að skoða alla þætti.

Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra. Ég held að það sé ágætt að taka þessa umræðu. Það hefur verið kallað á aukið gagnsæi. Þetta er kannski leið til þess að við bætum við það sem við höfum þó áður gert. Ég er alla vega sannfærð um að við þurfum að tilgreina það sem á að vera hægt að draga frá í starfskostnaði. Ég tel óheppilegt að þingskrifstofan sé sett í það á hverjum tíma. Það þyrfti hvort sem er að vera einhvers staðar til skriflegt. Endurnýjun verður á starfsfólki og gott að til sé viðmiðunarblað sem liggur fyrir og ágætt að hafa þetta bara í reglunum.