149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Mér finnst örla á svipuðum misskilningi í máli hv. þingmanns og í máli framsögumanns, þ.e. menn segja: Hér er fullt aðgengi. Það er alveg rétt. En aðgengið hefur aukist gríðarlega á síðustu 20–25 árum. Þess vegna hefur neysla á áfengi á Íslandi þrefaldast í lítrafjölda frá árinu 1980 eins og gleggsta mælingin á áfengisneyslu sýnir, þ.e. hreint áfengi í lítratali á mann á ári hefur aukist úr rúmum 3 lítrum, eða milli 3,5 og 4, upp í 7–8 núna. Það er út af auknu aðgengi. Meiri parturinn af þessari söluaukningu, samkvæmt upplýsingum frá landlækni, er ekki í vínbúðum heldur á vínveitingastöðum.

Við vitum um afleiðingarnar. Við vitum að nú eru komin upp skorpulifrartilfelli sem voru nánast ekki til á Íslandi áður. Við vitum að ef við opnum enn á aukið aðgengi að áfengi hefur það afleiðingar. Þetta frumvarp mun eitt og sér væntanlega valda því að neysla í lítrum talin, þ.e. hreinum vínanda á mann, mun fara úr 7–8 lítrum upp í rúma 11 lítra með tilheyrandi afleiðingum.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann líkt og ég spurði flutningsmann áðan: Hvað vill hv. þingmaður gera til að bregðast við þeim heilsufarsáföllum sem við munum verða fyrir verði þetta frumvarp að veruleika? (Forseti hringir.) Hvernig vill hún bregðast við krabbameinunum, hjarta- og æðasjúkdómunum og aukinni áfengissýki?