149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:14]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg):

Herra forseti. Það er kannski rétt að taka það fram áður en ég byrja að ég hef mikla reynslu af neyslu áfengis, þar á meðal kaupum, bæði hér á landi og erlendis. Ég veit alveg hvað ég er að fara að tala um.

Ég byrja á að tala um það sem 1. flutningsmaður frumvarpsins virðist helst vilja tala um, þ.e. viðskiptafrelsið. Ef ég skil hann rétt snýst þetta bara um hver fær að græða. Það er sem sagt mjög nauðsynlegt að ríkið græði ekki á að selja áfengi heldur einhverjir einkaaðilar. Ég get ekki skilið það öðruvísi. Þá hlýt ég að spyrja: Hver á að fá þetta? Hver er vildarvinurinn sem þarf nauðsynlega að fá að selja áfengi? Af hverju þurfum við nauðsynlega að afhenda einhverjum einkaaðila þetta? Megnið af frumvarpinu virðist ganga út á að tala um hvað áfengi sé stórhættulegt og gengst flutningsmaðurinn við því að áfengi sé stórhættulegt. Þess vegna vill hann endilega dreifa því sem víðast af því að það er svo stórhættulegt. Ég átta mig ekki alveg á þeim rökum.

Ég verð að segja að mér finnast það frekar ódýr rök að fara svo að tala um hversu vel forvarnastarf hafi gengið hjá okkur og þess vegna sé okkur óhætt að dreifa áfengi víðar. Það er alltaf verið að tala um að dregið hafi svo mikið úr drykkju ungmenna. En eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson benti á hefur ekki dregið úr drykkju hjá okkur eldri, við drekkum miklu meira. Hvað um okkur?

Hér í vikunni hafa þingmenn komið upp, maður eftir mann, og sagt: Við verðum að láta ÁTVR fá meiri peninga. (Gripið fram í: SÁÁ.) — SÁÁ, ekki ÁTVR, þakka þér fyrir. [Hlátur í þingsal.] Ég var að lesa fréttir áðan um að í dag hafi verið haldin ráðstefna á vegum SÁÁ þar sem talað var um að biðlistinn hefði aldrei verið lengri, það væri svakalegt vandamál.

Hv. þingmaður benti á að þetta væri í ellefta sinn sem svona frumvarp væri flutt. Þá hlýtur maður að hugsa: Er þá bara ekki fullreynt? Hvað á að flytja þetta frumvarp oft á þingi? Skoðanakannanir hafa sýnt að íslenska þjóðin er ekki fylgjandi þessu. Hún kærir sig ekkert um þetta. Hún virðist hafa nægan aðgang að áfengi, enda segir flutningsmaður það. Það eru 50 áfengisverslanir á landinu. Það eru 1.200 veitingastaðir sem selja áfengi. Það er nægt aðgengi að áfengi. Það geta allir drukkið sig fulla hvenær sem þeir vilja. Hvað þá? Nei, það verður samt að leyfa einkaaðilum að selja áfengi. Í frumvarpinu segir meira að segja: Það á ekki að leggja ÁTVR niður. Það verður áfram. Ég átta mig alveg á því. Svo byrjar söngurinn, eins og um RÚV, um að ÁTVR taki allt of mikið pláss á markaðnum, þeir gætu jafnvel boðið lægra verð. Hvað þá? Þannig að verið er að lauma þessu inn með því að segja: Nei, nei, við ætlum ekki að leggja niður ÁTVR, en seinna verðum við svo að breyta lögunum um ÁTVR svo það þvælist ekki fyrir. Ég get ekki skilið það öðruvísi.

Áður en einhver segir við mig: Vilt þú alltaf hafa vit fyrir fólki? ætla ég að segja: Já, það er þannig, ég skal bara viðurkenna það. Ég ætla að hafa vit fyrir fólki. Það er fullt af fólki sem þarf að hafa vit fyrir. Það er fullt af fólki sem er með áfengissýki. Það er fullt af fólki sem glímir við geðsjúkdóma. Það er fullt af fólki sem glímir við alls konar vandamál og notar áfengi. Ég er hér kominn til að reyna að hafa vit fyrir því og halda sem mestu áfengi frá því. Það er bara þannig.

Ef maður les frumvarpið sést að þar er ekki efast um að áfengi sé hættulegt. Hvatt er til þess að auglýst sé sem mest hvað áfengi sé hættulegt og hvatt er til forvarna. Gengist er við því að nóg aðgengi sé að áfengi. Það er þá væntanlega einhvers konar prinsippmál að það sé bara ekki hið opinbera sem selji áfengi, hið opinbera má alls ekki selja áfengi. Er þetta þá bara breyting breytinganna vegna? Á bara frjálshyggjan að sigra? Má ríkið bara ekki standa í neinum rekstri sem gæti hallað á einhvern?

Ég gat ekki annað en dáðst að því sem ég var að lesa, þegar talið er upp hvað áfengi sé stórhættulegt. Þeir segja hér varðandi auglýsingar: Ekki má tengja áfengisneyslu við bætta líkamlega getu við akstur. — Ég veit ekki hver myndi gera það. Ekki má skapa þá ímynd að áfengisneysla stuðli að bættri félagslegri stöðu eða tengja áfengisneyslu við kynlíf. Ekki má gefa til kynna að áfengi hafi læknandi áhrif, sé örvandi eða deyfandi eða hjálpi til við lausn deilumála. Ekki má hvetja til óhóflegrar neyslu eða sýna áfengisbindindi eða hóflega neyslu í neikvæðu ljósi. Ekki má tengja háan vínandastyrkleika áfengra drykkja við gæði þeirra. Öllum viðskiptaboðum og fjarkaupum — ég átta mig ekki alveg á hvað það er — fyrir áfengi skal þar að auki fylgja viðvörun um að áfengisneysla valdi heilsutjóni.

Þannig að gengist er við því að áfengi sé hættulegt, en það er allt í lagi af því að unglingar drekka minna. Og áfengi er svo hættulegt. Leyfum þá bara einkaaðilum að selja það. Eini tilgangurinn er sem sagt að leggja niður verslanir ÁTVR, en samt ekki í fyrsta skrefi. Þeir mega samt starfa áfram af því að — ég veit það ekki, kannski leiddi það til óvinsælda. Síðast þegar þetta frumvarp var lagt fram var mikið talað um starfsmenn ÁTVR sem væru ríkisstarfsmenn, þeir kærðu sig kannski ekki um að hætta að vera opinberir starfsmenn. Þannig að nú virðist þetta vera orðið svona.

Í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið frumvarpsins er að afnema einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis og að einkaaðilum verði heimiluð slík sala að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.“

Svo kemur uppáhaldsatriðið mitt sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir minntist á:

„Frumvarpið gerir ráð fyrir að almennt verði heimilt að selja áfengi í smásölu í sérverslunum með mat- og drykkjarvörur en ekki stórmörkuðum og matvöruverslunum.“

Hv. þm. Þorstein Víglundsson svaraði því nánar hvers konar verslanir þetta væru eiginlega. — Sérverslanir með mat- og drykkjarvörur en ekki matvöruverslun. Er það þá kannski, eins og hv. þm. Helga Vala talaði um, fetaostur með rauðvíni? Það hlýtur að vera einhver matur sem passar sérstaklega með áfengi. Ég veit ekki hvað ætti að vera annað, eða hvort það er sælgæti eða hvað.

Svo kemur auðvitað samt undanþágan: en ekki á landsbyggðinni. Þá hugsar maður: Hvaða staður er ekki nógu stór til að vera með sérverslun? Erum við þá að tala um Selfoss, Hveragerði, þar sem þúsundir höfuðborgarbúa keyra um hverja helgi í sumarbústaðabyggðir? Eiga þá að vera sérverslanir á höfuðborgarsvæðinu, sem sagt Hafnarfirði og Kópavogi? Ég veit ekki hvort Garðabær er nógu stór. Svo erum við með Hveragerði, Selfoss, Blönduós, Sauðárkrók. Alltaf þegar við ferðumst eru áfengisverslanir inni í matvörubúðinni með undanþágu, en hér, kannski bara í 101 eða eitthvað, verði einhverjar gourmet-búðir með dýrt rauðvín, osta og döðlur eða eitthvað, og fetaost.

Ég vil segja við flutningsmenn þessa frumvarps, eins og komið hefur fram þegar málið var flutt fyrst fyrir tíu árum: Er ekki bara komið nóg að flytja eitthvert frumvarp 11 sinnum og það hefur aldrei komist áfram á Alþingi? Ég veit ekki hvort það hefur nokkurn tímann komist til nefndar, svo mikil er andstaðan við það.

Svo var nefnt hér áðan að sá sem vill drekka geti alltaf náð sér í áfengi. En sá sem reykir kannabis getur alltaf náð sér í kannabis. Er þá næst að fara að leyfa það af því að það er svo auðvelt að ná í það?

Í fréttum í gær var sagt að það að kaupa sér vændi væri bara eins og að panta pítsu. Eigum við þá alltaf að gefa eftir af því að það er svo auðvelt? Það er mjög auðvelt að keyra á 120. Eigum við þá bara að leyfa það?

Þetta snýst alltaf um að gefa eftir reglur, það er svo auðvelt. Það er svo auðvelt að brjóta reglurnar.

Mér finnst ákvæðið gjörsamlega óskiljanlegt um að þetta eigi að fara til einkaaðila en ekki að leggja niður ÁTVR.

Ég veit að ég hef sagt það áður en ég efast ekki um að þó að þetta verði í einhverjum sérverslunum muni stærstu aðilarnir á markaði opna búðir. Ég er alveg sannfærður um að bæði verður boðið upp á Bónus- og Krónubjór mjög fljótlega í sérstökum, litlum verslunum sem þær verslunarkeðjur hafa, sem eru með markaðsráðandi stöðu á Íslandi. Haldið þið virkilega að þær grípi ekki tækifærið? Að nota þau rök að einhverjir litlir bjórframleiðendur komi ekki sinni vöru að — mér finnast það bara engin rök, ekki nokkur. Auðvitað koma þeir sinni vöru að ef þeir kæra sig um.

Svo á allt í einu að fara að banna að auglýsa léttöl. Hér var talað um að verið væri að hefta atvinnufrelsi og að þetta hefti viðskiptafrelsi. Í sama frumvarpi á samt að banna auglýsingar sem leyfðar eru í dag. Það er þá allt frelsið. Það á að velja úr hvaða auglýsingar eru leyfðar í staðinn fyrir að segja: Tökum bara harðar á reglunum eins og þær eru í dag. Tökum bara á því fólki sem svindlar á auglýsingum. Verið er að gera þetta eitthvað fallegra með því að segja: Já, en við ætlum samt að banna þessar léttölsauglýsingar þarna, þær eru alveg óþolandi.

Stundum held ég að flutningsmenn þessa frumvarps óttist að vera heimóttarlegir og púkó, þeir verði bara að fá að vera eins og í útlöndum, það er alltaf verið að vísa í „já, í útlöndum get ég alltaf keypt bjór, í útlöndum get ég gert þetta og hitt“. Auðvitað vita þeir, eins og hefur verið sagt, að á Íslandi færi maður létt með að vera fullur allan sólarhringinn ef maður kærði sig um það. Eins og kannski er vitað er lítið mál að labba út af Alþingi beint inn á næsta bar, sem er opinn núna. Það er ekkert mál. Það hefur ekki verið neitt mál fyrir alþingismenn eða aðra að drekka áfengi eins og þá lystir.

Svo segir hérna, ég strika undir það:

„Aukið fjármagn í forvarnir og fræðslu til eflingar lýðheilsu.

Óhófleg neysla áfengis er skaðleg. Hún er skaðleg þeim einstaklingi sem haldinn er slíkri vímuefnafíkn og böl fyrir fjölskyldu hans og vandamenn. Samfélagið verður jafnframt fyrir ýmsum kostnaði vegna óhóflegrar og ólögmætrar neyslu áfengis. Árangursríkasta leiðin til að draga úr misnotkun áfengis er með forvarnastarfi, fræðslu og meðferðarúrræðum.“

Það er akkúrat það sem þingmenn hafa verið að tala um. Þeir koma hér upp í röðum og skjóta á heilbrigðisráðherra af hverju hann stendur sig ekki betur í því að láta SÁÁ fá meiri peninga. Af því að það eru allir sammála um að áfengisneysla Íslendinga er mikið böl. Það eru allir sammála um að allt of stór hluti miðaldra íslenskra karlmanna hafi farið í meðferð á Vogi. Það er alveg vitað. Eins og bent hefur verið á hefur áfengisneysla aukist. Þó að hún hafi blessunarlega minnkað hjá 14 ára unglingum og við höfum staðið okkur vel þar hefur hún aukist hjá miðaldra körlum eins og mér. Það er bara staðreynd.

Talað er um að áfengi sé orðið svo ríkur hluti af matarmenningunni. Þess vegna verðum við að selja áfengi víðar. Ég hélt nú að matur væri aðallega seldur á veitingahúsum. Og eins og fleiri hafa sagt: Maður fer létt með að skipuleggja matarboð með svo margra klukkutíma fyrirvara að maður hafi tækifæri til að fara út í búð.

Eins og öllum ætti að vera ljóst er ég alls ekki fylgjandi þessu frumvarpi. Mér finnst þetta eitthvert frjálshyggjuprinsippmál, að einhverjir einkaaðilar verði bara að fá að selja það sem ríkið gerir ágætlega.