149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

leiðrétting lífeyris vegna búsetuskerðinga.

[10:42]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og segja það í upphafi að Tryggingastofnun hefur sett fram ákveðna áætlun um það með hvaða hætti farið verður í þessar leiðréttingar aftur í tímann. Gert er ráð fyrir því að hafa þurfi samband við systurstofnanir Tryggingastofnunar í þeim löndum þar sem einstaklingarnir sem þetta varðar hafa búið. Ég geri ráð fyrir því að Tryggingastofnun reyni að vinna það eins hratt og örugglega og kostur er.

Síðan er spurningin af hverju endurgreiðslan hefur ekki farið fram nú þegar. Það hafa farið fram samtöl á milli félagsmálaráðuneytisins annars vegar og fjármálaráðuneytisins hins vegar og eins milli félagsmálaráðuneytis og fjárlaganefndar Alþingis. Félagsmálaráðuneytið hefur fengið erindi þess efnis, bæði frá fjárlaganefnd og fjármálaráðuneytinu, að mikilvægt sé, varðandi allar breytingar á framkvæmd fjárlaga sem valda útgjaldaaukningu, að fyrir liggi að það rúmist innan ramma ráðuneytisins eða ramma Tryggingastofnunar á yfirstandandi fjárlagaári.

Við höfum unnið þetta mjög þétt með Tryggingastofnun og reyndar líka upplýst velferðarnefnd Alþingis, þar sem hv. þingmaður á sæti, með reglulegum hætti um þessi mál. Nú er verið að reyna að fá mynd á það hvaða upphæðir eru þarna sem þarf til leiðréttinga á yfirstandandi ári, næsta ári o.s.frv. Auðvitað liggur það ekki fyrir fyrr en við getum tekið einstaka mál fyrir og við þurfum að safna þessum upplýsingum.

Við þurfum síðan að afla okkur fjárheimilda fyrir þeim eða vera viss um að það rúmist innan þess fjárramma sem ráðuneytið hefur. Þetta er bara sá rammi sem við höfum búið okkur í kringum fjárveitingavald og framkvæmdarvald og hvernig það starfar. Það er enginn að segja að ekki verði farið í þessa vinnu heldur þurfum við að gera þetta með réttum hætti, bæði varðandi leiðréttinguna og eins það að afla okkur fjárheimilda til þess.