149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

þriðji orkupakkinn.

[11:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er alveg sjálfsagt að spyrja hæstv. ráðherra um hans málefni. Það væri náttúrlega enn betra ef hann myndi svara einhverju, en það er annað mál. Ég verð að spyrja enn og aftur: Hvað er það í málinu sem þvælist fyrir ríkisstjórninni? Málið hefur ekkert breyst. Það hlaut ítarlega umfjöllun hér og var afgreitt úr þinginu á sínum tíma án nokkurra fyrirvara og í raun og veru gefið grænt ljós á að það yrði tekið upp í EES-samninginn. Það var okkar tækifæri til að hafa einhver áhrif á þetta mál á þeim tíma. Það var engin umræða svo ég man til í þeirri ríkisstjórn sem stóð síðan að upptökunni í maí 2017 um neitt er tengdist einhverjum meinbugum á að taka málið upp. Það virðist eitthvað nýtt hafa sprottið upp sem veldur þeirri miklu flækju að ríkisstjórnin virðist núna í annað sinn ætla að heykjast á því að leggja málið fram.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að þetta er mikilvægt mál sem snýr að málefnum EES-samningsins í breiðum skilningi. Við veljum nefnilega ekki eftir á hvað við tökum upp í samninginn og auðvitað er mikilvægt að við stöndum við þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist í tengslum við samninginn. (Forseti hringir.) Þess vegna vekur þessi dráttur ríkisstjórnarinnar mikla furðu og ég spyr: Nýtur málið ekki stuðnings ríkisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Ég minni þá á heit Viðreisnar og Samfylkingarinnar um að hjálpa málinu í gegn.