149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:49]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Virðulegur forseti. Ef þingfólk gæti sleppt því að núlla út reynsluheim fátæks fólks með rausi um kaupmátt og annað rugl væri það flott. Takk.

Virðulegur forseti. Vernd, umönnun og þátttaka eru meginmarkmið barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var löggiltur hér á landi árið 2013. Við sem þjóð erum skuldbundin þessum sáttmála sem og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Börn hafa þessi réttindi, herra forseti, fyrst og fremst til að vera börn og lifa í sakleysi sínu svo til áhyggjulaus um vandamál hversdagsins sem foreldrar þeirra þurfa að kljást við. Á mínu heimili kallast það fullorðinsáhyggjur. Það er meira en að segja það að róa niður kvíðafullt barn sem heyrði of mikið af fullorðinsáhyggjum foreldra sinna. Að sannfæra barnið um að það eigi að fá nýja skó þegar göt eru komin á þá gömlu, þrátt fyrir að þeir kosti peninga, að sannfæra barn um að yfirhöfn sé nauðsynlegur vetrarbúnaður þrátt fyrir að kosta peninga, að anda í gegnum kvíðakastið sem fylgir synjun á kortinu í matvörubúðinni. Þetta eru áhyggjur sem börn á Íslandi ættu ekki að þurfa að búa við.

Fátæk börn eru fátæk af því að við sem samfélag höfum ekki staðið okkur gagnvart foreldrum þeirra og við sem samfélag höfum ekki staðið okkur í að vernda rétt þeirra. Það sést í skýrslunni um velferð og fátækt barna sem er hér til umræðu. Lausnin felst í hækkun á lægstu launum og bótum. Það er frekar einfalt. En skýrslan segir einnig að vandinn sé ekki óyfirstíganlegur ef viljinn er fyrir hendi.

Skýrslan gefur því vonarljós fyrir fátæka foreldra og börn þeirra um að ef stjórnvöld taka þessum óréttleika af fullri alvöru mun koma betri tíð með blóm í haga, sama hver bakgrunnur og uppruni þeirra er. Það er vissulega ánægjulegt að heyra af áformum hæstv. ráðherra. Við getum náttúrlega ekki annað en vonað að þeim fylgi aðgerðir.