149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:54]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur verið mjög góð og mjög samhljóma. Ég held að gríðarlega mikilvægt sé að við leggjumst öll á eitt með þennan málaflokk, rétt eins og hv. þm. Inga Sæland kom inn á áðan. Ég vil segja að margt er í gangi, en engar breytingar verða gerðar nema allir komi að þeim. Málaflokkurinn er þess eðlis að hann er bæði hjá ríki og sveitarfélögum og hann er hjá einstökum ráðuneytum innan ríkisvaldsins. Því þarf að tryggja að allir tali saman og rói í sömu átt.

Það er eitt og annað sem mig langar að nefna sem komið var inn á í umræðunni. Ég tek undir með þeim sem töluðu um sveitarfélögin og fagna því að mörg sveitarfélög hafa staðið sig mjög vel, m.a. við innleiðingu barnasáttmálans. Við höfum verið að skoða það núna í nýju félagsmálaráðuneyti hvernig við getum stutt betur við sveitarfélögin við innleiðingu barnasáttmálans, hvernig við getum komið af meiri krafti inn í það.

Þegar er komin af stað vinna við að gera sérstaka heildaráætlun í málefnum barna, líkt og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir benti á áðan. Ég fagna því þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar þar sem komið er inn á mörg atriði sem snúa að málefnum barna vegna þess að við þurfum öll að leggjast á eitt í þessum málum.

Síðan vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, við erum að stíga mörg stór skref. Því þurfum við að vera í góðu samráði um þau. Varðandi barnafátæktina þurfum við að bregðast við af miklu meiri krafti. Við höfum þegar ráðist í ýmsar aðgerðir. Ég ætla mér að setja í gang vinnu með sérfræðingum og fleiri aðilum við að meta með hvaða hætti við getum stigið fastar inn í til að útrýma barnafátækt. Við munum setja það af stað og horfa til þessarar skýrslu og líka skýrslu UNICEF.

Síðan vil ég segja að lokum að væntanleg er inn í þingið ný framkvæmdaáætlun um barnavernd þar sem gert er ráð fyrir 600 millj. kr. aukningu í málaflokkinn frá því sem nú er, með nýjum snemmtækum úrræðum (Forseti hringir.) í fullu samræmi við þá stefnu sem verið er að setja um þessi mál hjá ríkisstjórninni með stuðningi allra flokka (Forseti hringir.) í þverpólitísku nefndinni og víðar. Takk fyrir þessa umræðu. Hún var mjög góð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)