149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

um fundarstjórn.

[11:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á dagskrá fundarins og fundarstjórn forseta. Næst á dagskrá er fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.), mál sem kom okkur nokkuð á óvart að skyldi koma á dagskrá í ljósi þess að atvinnuveganefnd öll er erlendis að fjalla einmitt um og kynna sér fiskeldi.

Við höfum hins vegar fengið vísbendingar frá hæstv. forseta Alþingis um að fundur verði í hádeginu með þingflokksformönnum þar sem farið verður yfir málið og reynt að finna einhvern flöt á því að klára það sómasamlega á næstunni.

Það er nánast óþolandi að þingmenn skuli búa við það að fá fréttir, og síðan tölvupósta sem menn geta verið misánægðir með orðfærið í, þar sem reynt er að segja við þá að það hafi verið ákvörðun ráðherra, forseta og einhvers nefndarformanns (Forseti hringir.) að halda á málum eins og hér var gert. (Gripið fram í: Fáránlegt.) Það er ekki hægt annað en að gera athugasemdir við þetta.