149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:45]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algjörlega sammála því að fara þurfi varlega og huga að mörgu í þessari uppbyggingu. Það er mikilvægt að halda því til haga að ekki er bara verið að tala um að samfélögin þar sem iðnaðurinn er að byggja upp hafi mikinn ábata af þessu. Eins og ég kom inn á áðan eru alveg gríðarleg verðmæti í húfi fyrir þjóðarbúið nú þegar við stöndum í miðjum kjaraviðræðum og kjaraátökum. Þá skiptir máli að menn hugi líka að því og horfi til þess hvernig við ætlum að stækka kökuna þannig að meira verði til skiptanna. Þetta er stór þáttur í því að byggja upp verðmæt störf.

Ég hafði heyrt samanburðinn um mengunina í Færeyjum eða úrganginn, því að þarna er vitnað í úrganginn frá laxeldinu. Færeyingar eru með um 80.000 tonn, ef ég man rétt, sem jafnast á við úrgang frá Kaupmannahöfn. En einhvern veginn er þetta leyst með úrganginn frá Kaupmannahöfn. Við leysum það. Það stendur alla vega ekki til að flytja það fólk neitt í burtu eða að gera eitthvað. Það held ég að sé hægt að gera í þessu tilfelli líka. Ég held að þetta séu allt leysanleg mál.

Á ráðstefnu um þessi mál sem var haldin í Ólafsfirði fyrir tveimur árum hélt erindi kennari sem hefur kennt þau fræði á Hólum í Hjaltadal í áratugi. Hann sagði að hann áttaði sig oft ekki á umræðu um úrgang frá laxinum. Hann sagði að á landi töluðum við um húsdýraáburð en í sjó um mengun. Ég held sem sagt að þetta sé allt leysanlegt. Kaupmannahöfn kæmist klárlega fyrir á Vestfjörðum og ef úrgangurinn úr laxeldinu jafnast á við það plús sú fámenna byggð held ég að það sé leysanlegt. En ég tek algjörlega (Forseti hringir.) undir og er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að horfa mjög vandlega til þessa og áhrifa á annað lífríki, uppeldisseiða á þeim svæðum, fyrir sjávarfang o.s.frv.