149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:53]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurn þingmannsins. Ég held að það sé þannig að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ráðherrann geti í sjálfu sér hafnað því mati sem fram er lagt. Þá helst bara það mat sem fyrir er.

Aftur á móti get ég algerlega tekið undir það og það hefur verið skoðun mín að vísindamennirnir geti lagt fram sínar tillögur og síðan er það á ábyrgð þings og ráðherra að bera hina pólitísku ábyrgð á þeim niðurstöðum sem kynntar eru, eins og gert er í fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég veit að við munum skoða þetta sérstaklega í nefndinni. Það er líka mjög stórt atriði að um þetta mál ríki mikill friður og sátt. Við þurfum auðvitað að ræða við þá aðila sem að þessu máli koma og í lok þeirrar umræðu mun endanleg afstaða mín hvað það varðar koma fram. En ég er þó frekar á því að pólitísk ábyrgð fylgi öllum málum sem við erum með hér í þinginu.