149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[17:17]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði í framsögu sinni með frumvarpinu er hann fylgdi því úr hlaði við upphaf umræðunnar. Hann sagði að umræðan væri of oft og of mikið einangruð við það hvort menn séu á móti laxeldi eða með, að menn séu flokkaðir í þá tvo hópa. Ég held að kannski sé óhjákvæmilegt þegar við ræðum jafn stóra hagsmuni og hér eru undir, því að þeir eru gríðarlega stórir, að umræðan flokki menn og málefni svolítið með þeim hætti. Ég held að það sé akkúrat verkefnið sem þingið er að takast á við, að komast upp úr þeim skotgröfum.

Virðulegi forseti. Við sem þingmenn Norðvesturkjördæmis höfum séð þá stórkostlegu breytingu sem uppbygging í fiskeldi hefur valdið í byggðarlögum í kjördæmi okkar. Það hefur aldeilis verið grýtt og torsótt leið fyrir þau fyrirtæki sem þar hafa komið sér fyrir að því að skapa þau miklu verðmæti sem þegar eru farin að streyma frá því landsvæði fyrir þjóðarbúið og þetta landsvæði og fólkið sem þar býr. Þarna eru stórkostleg áform til uppbyggingar. Ég held að við eigum líka að vera fólk til að viðurkenna að umhverfi þeirra sem að slíku hafa staðið hefur ekki verið sérstaklega gott eða sérstaklega burðugt. Bæði þurfa þeir að fást við erfiðar samgöngur við landshlutann og ýmsa aðra þætti sem hafa verið til trafala við uppbygginguna, m.a. vegna þess að löggjöfin er ófullkomin. Það er einmitt það sem þetta frumvarp á að bæta úr og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við ljúkum umræðu um það á þessu vorþingi og komum þeim ramma í ákveðinn farveg.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að fiskeldi, laxeldi, getur verið ein af undirstöðunum undir efnahag þjóðar okkar til lengri tíma og að sú matvælaframleiðsla sem þar er verði okkur til mikilla hagsbóta.

Rétt eins og hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðunni eru aðrir þættir sem við megum aldrei gleyma. Við bárum til þess gæfu snemma á síðustu öld að setja sérstaka löggjöf um nýtingu veiðihlunninda og stýringu á þeim, það er líklega ein fyrsta umhverfislöggjöf Alþingis. Sá grunnur sem þar var skapaður kom reyndar í kjölfarið á því að menn voru að versla með bújarðir og taka undan veiðihlunnindi og flytja arð af þeim hlunnindum út úr héruðum. Ég ætla ekki djúpt í þá sögu en við getum sagt að sú umgjörð um nýtingu veiðihlunninda sem þar var sköpuð og hefur verið þróuð alla tíð síðan hafi reynst gríðarlega dýrmæt fyrir margar byggðir landsins.

Það er hægt að rifja upp, virðulegi forseti, af því að ég nefndi okkar ágæta kjördæmi sem við báðir sitjum í sem þingmenn, að þeir hagsmunir eru líka ríkir í Norðvesturkjördæmi, nýting veiðihlunninda.

Þetta er sá dans sem þingið þarf að stíga og þetta er það verkefni sem þingið þarf að leysa, að samræma þau sjónarmið sem þarna mætast.

Ég vil rifja upp að samkvæmt ágætri úttekt sem veiðiréttareigendur eða Landssamband veiðifélaga og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands létu vinna eru um 69% tekna í sveitum á Vesturlandi til komin vegna nýtingar veiðihlunninda. Það er eitthvað lægra hlutfall í t.d. sveitum Húnavatnssýslu. Við megum hvorki né getum unnið þannig að framgangi mála að eitt ógni öðru. Það getum við aldrei leyft okkur og ætlum heldur ekki að gera það. Við getum ekki byggt upp veika byggð á því að ógna afkomu annarra byggða, enda stendur það ekki til.

Ég held að vegna þess farvegs eða þeirrar leiðar sem verið er að feta með frumvarpinu, þ.e. með áhættumatinu, verði að taka þeim höndum í meðförum nefndarinnar — sem ég vísa þá til að hún vinni vel og rækilega umfram það sem hæstv. ráðherra hefur gert í undirbúningi frumvarpsins — að áhættumatið verði það stýritæki sem báðir aðilar og við öll sem berum hag umhverfis og atvinnugreinarinnar, fiskeldis, fyrir brjósti getum treyst á og notað til lengri tíma. Áhættumatið er að mínu viti grunnur eða hornsteinn frumvarpsins. Um áhættumatið hefur verið mikið deilt og menn eðlilega missáttir við það en eftir því sem ég best veit er það aðferð sem hvergi annars staðar hefur verið þróuð á þann hátt sem við höfum gert.

Ég vil minna á það við umræðuna, því að hér hafa mikið verið dregin inn völd og hlutverk Hafrannsóknastofnunar, að ekki fyrir löngu síðan sameinuðum við inn í Hafrannsóknastofnun Veiðimálastofnun, sem hafði eingöngu það hlutverk að vera rannsókna- og ráðgjafarstofnun um nýtingu veiðihlunninda. Þess vegna drögum við fram hið mikla og sterka hlutverk Hafrannsóknastofnunar í frumvarpinu. Mikilvægt er að menn hafi í huga að það byggir á því starfi sem Veiðimálastofnun áður sinnti. Veiðimálastofnun og rannsóknir hennar, ráðgjöf um nýtingu og eflingu veiðihlunninda og fiskigengdar, hvort sem menn hafa ræktað upp ár eða viðhaldið öðrum og gert þær að betri veiðiám og verðmætari, eru hornsteinn þeirra verðmæta sem ég nefndi áðan, í fjárstreymi fyrrnefndra byggðarlaga. Ég er ekki í nokkrum vafa um og get tekið enn og aftur utan um það að löggjöf um nýtingu veiðihlunninda og sú starfsemi sem Veiðimálastofnun hefur sinnt í gegnum árin sé grundvöllur að þeim miklu verðmætum sem þar hafa runnið og til styrktar þeim byggðarlögum sem þar eru. Á því vildi ég vekja athygli.

Hér hafa að mörgu leyti verið fluttar ágætar ræður um þetta frumvarp og margar mjög lærðar ræður um einstök atriði áhættumatsins og atriði sem við þyrftum að taka tillit til í löggjöf um fiskeldi, en í mínum huga er það fyrst og fremst áhættumatið sem við getum þróað áfram og byggt á til lengri tíma. Þess vegna voru það tímamót þegar fulltrúar fiskeldisstöðva og veiðiréttareigenda skrifuðu undir samkomulag sem niðurstöðu nefndarstarfs fyrir rúmu ári síðan um að nota áhættumatið sem stýritæki. Ég varð mjög var við það í kjölfarið að menn vildu áhættumatið út af borðinu. Það var skiljanlegt út frá ákveðnum sjónarmiðum. Ég held að það sé samt lykillinn að þeirri lausn sem við getum unnið að. Þess vegna hefur vinna ráðherrans og það sem hann rakti í framsöguræðu snúist um að reyna að skapa farveg og utanumhald um áhættumatið þannig að hvorugum þyki á sig hallað. Það er mikið vandaverk því að um leið og við förum að draga fram sterkari rök utan um áhættumatið finnst einhverjum sem vilja verja hagsmuni eldisins vera á sig hallað og um leið og við förum að rýra gildi áhættumatsins finnst öðrum hagsmunaaðilum á sig hallað. Þetta er því ákveðinn tímadans.

Í þriðja lagi vil ég beina því til hv. atvinnuveganefndar að ræða í meðförum sínum gildi rannsókna, bæði um áhrif af eldi og gildi rannsókna á villtum laxastofni, sem ég held að við eigum mikið órannsakað um, ekki bara um áhrif eldis á hann heldur líka hvernig við getum bætt nýtingu þeirra hlunninda og farið betur með þá gjöf sem náttúran hefur gefið okkur, um nýtingu laxastofna og annarra veiðistofna eins og silung, urriða og annað sem skapar grunninn að þeim hlunnindum sem við nýtum með jafn ágætum árangri og við höfum gert.

Ég vil ekki blanda í umræðuna gjaldtöku af fiskeldi í þeim efnum en ég held að samhliða því að við eflum fiskeldið eigum við að efla rannsóknir á villtum laxi og frekari rannsóknir og meiri nýtingu veiðihlunninda. Við eigum mjög mörg lönd ónumin í þeim efnum og víða liggja enn þá mikil tækifæri til styrktar byggðum í sveitum, til aukinnar verðmætasköpunar, til að ná meiri árangri í nýtingu ýmissa vatna og vatnasvæða.

Virðulegi forseti. Áhættumatið er í því ljósi slóðin sem við erum að feta okkur og það væri til styrktar ef við gætum kallað fleiri að því borði og undirbyggt betur, hvort sem við erum að tala um innlenda sérfræðinga eða erlenda. Þess vegna ber ég engan kvíða fyrir því að Hafrannsóknastofnun sé veitt jafn ríkulegt hlutverk og gert er í frumvarpinu með vísan til þess að þar er byggt á góðu og traustu starfi gömlu Veiðimálastofnunar sem hefur skilað þeim árangri sem til er vitnað.