149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[18:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir mjög góða spurningu. Þetta er nokkuð sem við eigum ávallt að velta fyrir okkur þegar við gerum kröfur, eins og kemur skýrt fram í umræðunni. Við viljum gera kröfur. Við viljum gera kröfur um uppbygginguna á þessari atvinnugrein og kröfu um að umhverfi og náttúru verði ekki ógnað. Eins og ég sagði í ræðu minni er áhættumatið hornsteinninn í þessu. Við gerum miklar kröfur til fyrirtækja um upplýsingagjöf. Rökin fyrir þessum auknu kröfum um upplýsingar eru þau að við viljum fylgjast vel og náið með framleiðslumagninu og þróun á nýtingu leyfanna og leyfilegri framleiðslu á tilteknum svæðum sem við vinnum með. Til að það sé framkvæmanlegt verðum við að gera þessar kröfur.

Ég tek hins vegar alveg undir það með hv. þingmanni að við verðum á sama tíma að tryggja að fyrirtækin séu í stakk búin að inna af hendi þessar upplýsingar. Það má kannski segja að það verði hlutverk nefndarinnar í stóra samhenginu að fara vel yfir þann þátt.

Ég held að þetta sé mjög þörf og góð ábending. Ég er ekki með frumvarpið fyrir framan mig, ég þyrfti að fletta því upp, en hér erum við t.d. að tala um umhverfissjóð. Það má hugsa sér slíka leið til að styrkja (Forseti hringir.) fyrirtækin í þessari umsýslu sinni fyrst um sinn vegna þess að ekki verður hjá því komist að gera þessar kröfur.