149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[18:27]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta var mjög tæknileg fyrirspurn. Almennt er mín skoðun á upplýsingagjöf þegar matvæli eru unnin og í matvælaframleiðslu og slíkum þáttum að sem mest gagnsæi skuli vera til staðar.

Lærdómurinn sem ég dró í Noregsferðinni góðu, sem við hv. þingmenn vorum báðir í, er að í kvíunum í Noregi getur maður nálgast upplýsingar um hverja kví á netinu, t.d. um þéttleikann í kvínni, laxalúsina og úrgang frá kvínni. Það fannst mér mjög áhugavert. Það er til mikillar fyrirmyndar og ég hef trú á því að nefndin skoði þennan þátt í sinni vinnu og fari í gegnum þessa þætti.

Það er ótal margt í þessa veru sem við lærðum í Noregsferðinni um fiskeldi hjá Norðmönnum. Það er kannski erfitt efnislega að fara í mikla umræðu um þessa 19. gr., a, b og c, og þær tæknilegu forsendur sem þar eru á bak við. En ég get sagt almennt að gagnsæi í matvælaframleiðslu er gríðarlega mikilvægt. Mér fannst Norðmennirnir gera þetta vel, hvernig þeir hafa þetta opið með sínar kvíar. Það snýr að ýmsu, eins og ég rakti áðan, sjúkdómum, laxalús og hverju sem er sem tengist kvíunum og lífmassanum í þeim.