149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég var ekki að spyrja að því hvort við ættum segja okkur frá mannréttindasáttmála Evrópu. Um það snerist spurning mín ekki, heldur var ég að falast eftir því hvort ráðherra gæti tekið undir ummæli sem þessi, að dómstóllinn hafi verið notaður í pólitískum tilgangi.

Hæstv. ráðherra vísar í minnihlutaálitið, eins og Sjálfstæðismenn hafa reyndar líka verið mjög gjarnir á að gera. Þar kemur fram að minni hlutanum finnst meiri hlutinn hafa látið stærð þessara mála á Íslandi hafa aðeins of mikil áhrif á sig.

Mér finnst það allt annar handleggur en að halda því fram að dómstóllinn hafi látið nota sig í pólitískum tilgangi, að hann sé að fylgja einhverjum stefnum og straumum í Evrópu, einhverjum tískubylgjum, frekar en að fara eftir settum lögum, eða þá að dómurinn feli í sér inngrip í fullveldi Íslands. Það finnst mér ekki vera málefnaleg gagnrýni.

Það kemur mér á óvart að hæstv. ráðherra hafi ekki þá skýru afstöðu með mér með því (Forseti hringir.) að tala um það án nokkurs haldbærs rökstuðnings að einhver hafi verið að nota Mannréttindadómstól Evrópu í pólitískum tilgangi í þessu Landsréttarmáli. Það er málefnaleg gagnrýni á dóminn sjálfan.