149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að hún hafi ekki verið viðbúin þeirri niðurstöðu sem okkur barst frá Mannréttindadómstóli Evrópu í síðustu viku. Ég vil lýsa því yfir að ég var ekki viðbúin þessum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar, enda voru margir mánuðir sem liðu frá því að málið var sent til Mannréttindadómstólsins og margar vikur sem liðu frá því að okkur var tjáð að 12. mars 2019 kæmi niðurstaða dómstóls í þessu máli. Það er nefnilega þannig að þegar farið er í dómsmál, hvort sem er til sóknar eða varnar, vita allir að niðurstaðan getur í raun farið á hvorn veg sem er, sama hvað maður óskar sér. Allir þeir sem hafa rekið mál fyrir dómi vita þetta og þess vegna varð ég svolítið hissa þegar ég heyrði að ríkisstjórnin hefði ekki verið viðbúin þessari niðurstöðu af því að þeir kollegar mínir sem ég hef rætt við síðustu mánuði voru bara ekkert hissa á þessari niðurstöðu. Þeir bjuggust einmitt við þessari niðurstöðu.

Þá veltir maður fyrir sér við hverja ríkisstjórnin hafi verið að ræða. Voru það bara einstaklingar sem hafa aldrei rekið mál fyrir dómi sem halda að af því að þeir eru á einhverri skoðun verði dómstóllinn sammála þeim? Það var fyrirséð að högg yrði á Landsrétt ef þetta færi eins og mjög margir höfðu spáð, mjög margir sérfræðingar í lögum, að Ísland yrði dæmt fyrir að hafa brotið gegn 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Strax í síðustu viku eða samdægurs, þann 11. mars sl., brást Landsréttur við enda var Landsréttur viðbúinn því að svona gæti farið. Hæstiréttur brást sömuleiðis við samdægurs og sendi bréf á alla þá aðila sem áttu mál þar inni. Dómstólasýslan brást sömuleiðis samstundis við — en ríkisstjórnin var ekki viðbúin.

Landsréttur lá niðri í heila viku, allur sem einn. Hvað þýðir það? Hvaða mál eru það sem dragast vegna þessa ástands í boði ríkisstjórnarinnar? Hvaða hagsmunir eru það sem eru undir? Hvaða mál eru þarna? Við erum að tala um líkamsárásarmál, kynferðisofbeldismál, nálgunarbann, kynferðisbrot gegn barni, barnaverndarmál, forsjármál, forsjársviptingarmál, nauðungarvistunarmál, vistun barna utan heimilis o.s.frv. en líka alls konar mál sem varða peninga sem hafa óskaplega litlar tilfinningar og geta þess vegna alveg beðið. En þetta, herra forseti, eru málin sem núna mega bíða í boði ríkisstjórnarinnar. Málahalinn er ófyrirséður. Þriðjungur dómara Landsréttar er óstarfhæfur í boði ríkisstjórnarinnar. Það eru 82 mál sem fallið hafa á síðustu 15 mánuðum, bara hjá ríkissaksóknara, sem nú er óvissa með framhaldið á. Það eru 42 kynferðisofbeldismál.

Og hver er kostnaðurinn af þessu öllu saman? Við sáum það við stutta yfirferð að í tíu málum hjá einum dómara sem dæmt hefur í 128 málum er málskostnaðurinn 28 millj. kr. og þá erum við bara að tala um sjálfstæðu lögmennina. Við erum ekki að tala um málskostnað hjá ríkislögmanni eða ríkissaksóknara. — Kostnaður ríkisins við endurupptöku, kostnaður við að reka mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu?

Ánægjulegt var að heyra skýra afstöðu hæstv. forsætisráðherra varðandi Mannréttindadómstól Evrópu og að taka bæri þennan dóm alvarlega. Það er nefnilega fylgst með okkur utan úr heimi. Það eru dómarar í Evrópu og lögmenn í Evrópu sem fagna þessari niðurstöðu vegna þess að þeir vita sem er að sjálfstæði dómstóla er algjört grundvallaratriði.

En það var ekki jafn ánægjulegt að heyra þegar hæstv. forsætisráðherra spurði hversu langt Mannréttindadómstóll Evrópu mætti ganga gegn sjálfstæði aðildarríkjanna af því að þá fer maður að spyrja: Er ríkisstjórnin búin að gleyma tilgangi sáttmálans? Er ríkisstjórnin búin að gleyma hver er tilgangur með mannréttindasáttmála Evrópu, sem er að tryggja réttindi borgara aðildarríkja gegn ofríki framkvæmdarvaldsins, gegn ofríki ríkisstjórnanna, í aðildarríkjunum?

Af hverju þurfum við sjálfstæða, óvilhalla dómstóla? Það er til þess að tryggja rétt borgaranna, að þeir fái réttláta málsmeðferð í málum sínum, málum sem rekin eru gegn ríkinu eða af ríkinu gegn borgurum. Það verður ekki tryggt ef ríkisstjórn landanna handvelur dómara sína inn í réttinn. Þetta er alvarleiki málsins.

Það verður að meta alla hagsmuni þegar við horfum á framhaldið. Gamlir kollegar mínir í lögmannastétt gera fátt annað þessa dagana en að svara umbjóðendum sínum sem ýmist vilja fara í endurupptöku eða fresta afplánun. Endurupptaka, hvernig ætlar ríkisstjórnin að leggja til að staðið verði að því? Eins og áður sagði eru þetta 82 mál bara hjá ríkissaksóknara, 31 barnaverndarmál. Hvað svo með hina 11 dómarana? Erum við örugg um að Landsréttur geti starfað eins og hann ætlar að starfa út þessa viku? Hvenær kemur að því að einhver lögmaðurinn fer og lætur reyna á það í Strassborg fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu?

Nei, herra forseti, mig langar einlæglega að biðja ríkisstjórnina um að reyna að minnka tjónið sem við stöndum nú frammi fyrir vegna embættisgerða Sigríðar Á. Andersen í starfi dómsmálaráðherra og meta hagsmunina af því að byggja upp Landsrétt að nýju í stað þess að halda þessari óvissu áfram með áfrýjun til yfirdeildar.