149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða á vinnumarkaði og jöfnunarsjóður.

[13:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég er algjörlega ósammála því að hér sé verið að ræða óskyld mál. Verkalýðshreyfingin og atvinnulífið hafa margsinnis bent á, ásamt fleirum hér inni, að fleira þarf til en há laun til að fólki líði vel. Það er einmitt vandinn að ríkisvaldið hefur á síðustu árum vanrækt að viðhalda velferðarkerfinu og meira að segja látið hluta af því grotna niður með því að gera húsnæðisbætur nánast að sagnfræði og láta barnabætur skerðast miklu skarpar við meðaltekjur, og ég gæti haldið áfram að telja. Við erum sammála um nauðsyn húsnæðismálanna. Þau mál komu of seint fram og þau eru ekki fjármögnuð en við sjáum hvað því líður á næstu dögum.

Ég hlýt þá að ítreka spurninguna: Kemur virkilega til greina að taka 3,3 milljarða af jöfnunarsjóðsgjaldi til sveitarfélaga? Þau standa ekki undir þjónustunni nú þegar, eru undirfjármögnuð vegna þess að þau hafa fengið verkefni frá ríkinu og nægir þar að nefna 3–4 milljarða sem vantar inn í kerfið í öldrunarþjónustu.