149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

kjör öryrkja.

[13:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Króna á móti krónu skerðing gagnvart öryrkjum er fjárhagslegt ofbeldi sem hefur varað í tvö ár eftir að eldri borgurum var sleppt úr þessu fjárhagslega skerðingarofbeldi. Ríkisstjórnin er í plús um 30 milljarða sem henni hefur með stolti tekist að hafa af öryrkjum með því að afnema ekki skerðinguna af þeim á sama tíma og hjá eldri borgurum.

Aldurstengd örorkuuppbót myndi hætta að skerða framfærsluuppbótina og næði þar með tilgangi sínum sem er að koma til móts við einstaklinga sem ekki safna réttindum í lífeyrissjóð ef króna á móti krónu skerðingin færi strax. Öryrkjar myndu njóta greiðslna sem eiga að bæta stöðu þeirra, svo sem dánarbóta, mæðra- og feðralauna, sjúkrabóta, lífeyrissjóðslauna og séreignarsparnaðar. Sérstaka uppbótin er um 60.000 kr. á mánuði og ef menn eiga eina milljón í séreignarsparnað gerir ríkisstjórnin hana upptæka í formi skatta og skerðinga.

Þá eru þeir sem eru með búsetuskerðingar enn látnir sæta röngum og kolólöglegum útreikningum í boði stjórnvalda. Þarna er um 1.000 manns öryrkjar og af þeim eru 200 sem ríkið neitar að greiða afturvirkt í dag. Ríkisstjórnin er vísvitandi og viljandi að brjóta á þeim landslög. Svo eru það öryrkjar sem ríkisstjórn og Tryggingastofnun ríkisins vita að eiga engan rétt erlendis. Samt er haldið áfram að brjóta vísvitandi og viljandi lög á þeim.

Getur hæstv. forsætisráðherra svarað því hvenær þessu ólöglega fjárhagslega ofbeldi verður hætt? Þarna er verið að brjóta á þeim sem síst skyldi. Og það er alveg með ólíkindum hvernig svörin eru. Ef þeir sem þarna er um að ræða myndu segja við ríkisstjórnina og Tryggingastofnun, sem segja að útreikningarnir við að borga afturvirkt séu svo flóknir, að þeir ætluðu ekki að borga skattana sína, útreikningarnir séu svo flóknir vegna þess að þeir eigi að borga afturvirkt, og þeir sem eiga að borga Tryggingastofnun framvirkt myndu segja: Nei, ég get ekki borgað vegna þess að það er svo flókið að reikna þetta út, kæmust þeir upp með það? Eða er það bara ríkið sem kemst upp með það gagnvart þeim?