149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

samningur um stöðuna eftir Brexit.

[13:54]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í gær fengum við fréttir af því að samningur hefði náðst við Bretland um áframhaldandi viðskiptasamband eftir Brexit. Því ber að fagna og ég óska hæstv. utanríkisráðherra til hamingju með þann árangur. Ég velti því fyrir mér hvernig ráðherrann sér fyrir sér það samráð við þingið sem ætlast er til að eigi sér stað.

Auðvitað kemur það engum á óvart að við séum að leitast eftir samningi, það var ljóst frá upphafi. En fyrstu áþreifanlegu upplýsingarnar sem við fengum voru á minnisblaði sem var dagsett 8. mars sl. og þar var því lýst að samningaviðræður væru langt komnar. Fram að því voru bara óljósar handaveifingar en í gær fengum við svo að sjá niðurstöður í fréttum. Utanríkisráðherra ber samkvæmt þingsköpum að hafa samráð við utanríkismálanefnd um meiri háttar utanríkismál og sending minnisblaða er ekki samráð. Ætla mætti að samningur af þessu tagi myndi teljast vera meiri háttar utanríkismál og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann að gera í framtíðinni til að bæta ráð sitt gagnvart utanríkismálanefnd þannig að við séum meðvituð um það sem er í gangi? Það er ekki nóg að það liggi fyrir í grófum dráttum að eitthvað standi til heldur þurfa upplýsingar að liggja fyrir í nægilegum mæli til að hægt sé fyrir nefndina að veita utanríkisráðherra það ráðuneyti sem utanríkismálanefnd ber að gera.

Mig langar enn fremur að spyrja út í ferlið í framhaldinu. Nú er þessi samningur víst til. Hvað gerist núna? Hvenær fáum við að sjá samninginn? Að hvaða leyti stýrist samningurinn af því hver niðurstaðan verður í Brexit? Og svo er kannski rétt að spyrja: Hvað hefur orðið af öllum þeim tækifærum sem hæstv. ráðherra talaði um að væru til staðar? Ef staðan er, eins og kemur fram í fréttum, því sem næst óbreytt frá því sem er í dag í þessum samningi, eru tækifærin kannski ekki til? Voru þau kannski aldrei til? Eða eru einhver tækifæri að raungerast sem enginn hefur frétt af?