149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

samningur um stöðuna eftir Brexit.

[13:59]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta var svo sem kannski það svar sem maður átti von á, að það hafi einhvern veginn verið nægilegt samráð þó svo að samráðið hafi falist eingöngu í jú, vissulega einhverjum pistlum sem voru lesnir fyrir utanríkismálanefnd og síðan einu skitnu minnisblaði sem reyndar var ágætt en of lítið og kom of seint.

Fyrir utan það, eins og orðið gefur til kynna; samráð felur í sér að báðir aðilar komi að ráðum, að það sé saman ráðið. Það er ýmislegt í þingsköpum um hlutverk utanríkismálanefndar í slíku samráði.

Það er lítið eftir af þeim tækifærum sem utanríkisráðherra hampaði með vini sínum Boris Johnson hér um árið, sem fjallað var mikið um í þeirri skýrslu sem vísað er í.

Mig langar að spyrja út í eitt atriði vegna þess að það er mikilvægt atriði. Í minnisblaðinu er talað sérstaklega um tollkvóta gagnvart landbúnaðarvörum og álíka vörum. Nú erum við aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og samningsaðilar að GATT-samningnum. Í 11. gr. GATT-samningsins kveður mjög skýrt á um að enga kvóta megi setja af neinu tagi nema í þremur undantekningartilvikum.

Ég hef svo sem engan tíma til að fara yfir þau tilvik. (Forseti hringir.) Hvað af tilvikum ætti við í þessu tilfelli?