149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:35]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Staða neytenda á Íslandi er léleg, helst á þann máta að erfitt er að átta sig á raunverulegri stöðu neytenda. Hið góða starf Neytendasamtakanna verður oft undir í baráttu við áróður Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka atvinnulífsins og allra þeirra fyrirtækja sem að baki þessum samtökum standa.

Hagfræðihugtakið um fullkomnar upplýsingar á markaði kemur upp í hugann. Það er ljóst að neytendur skortir alvarlega aðgang að upplýsingum um vörur, þjónustu og samkeppni. Neytendur hafa í mörg horn að líta í lífi sínu en fólkið sem stýrir eftirspurn og reynir til hins ýtrasta að hafa áhrif á framboð er í fullu starfi við að takmarka yfirsýn almennings. Líkja mætti þessu við skákborð þar sem svartur sér allt borðið en hvítur bara helminginn af sínum mönnum í einu ásamt einum hróki og tveimur peðum andstæðingsins. Mikilvægt er að gerðar séu vandaðar og ítarlegar rannsóknir á neytendahegðun á Íslandi og greinargóðar úttektir á stöðu neytendamála hér á landi bornar saman við sambærilegar rannsóknir á Norðurlöndum og rýnt sé í hvort mikill aðstöðumunur sé hjá hagsmunasamtökum neytenda á Íslandi og þeim sem eru á Norðurlöndunum. Það er í höndum ráðherra að beita sér fyrir því að hafist sé handa nú þegar við að hrinda slíkri vinnu af stað. Neytendamálin eru beintengd þeim viðkvæmu kjaraviðræðum sem eru í gangi og mikilvægt að til staðar séu nákvæm og nýleg gögn í þessum efnum til að orðræðan í kringum neytendamál sé vönduð og nákvæm og út frá hagsmunum neytenda.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er aðeins tvisvar sinnum minnst á neytendur og þá bara í þröngt afmörkuðum málum, annars vegar er varðar merkingar (Forseti hringir.) á matvælum. Það er verið að skipa nefnd, skilst mér. Hins vegar á að lækka kostnað neytenda í fjármálakerfinu. Ég legg mikinn þunga á eftirfarandi orð mín: Áhugavert væri að vita hvar hið síðarnefnda er statt, herra forseti, (Forseti hringir.) og vísa ég aftur í mikilvægi þess í samhengi við yfirstandandi kjaraviðræður.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að halda ræðutíma.)