149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu sem er mjög nauðsynleg og sérstaklega vegna þess að 15. mars sl. var alþjóðadagur neytenda. Það var eiginlega John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, sem fyrstur kom fram með grundvallarréttindi neytenda, það er hægt að sjá á heimasíðu Neytendasamtakanna. Þar stendur líka að Sameinuðu þjóðirnar hafi lagt grunninn að átta lágmarkskröfum sem neytendur eigi rétt á: Þar er réttur til að fá grunnþörfum mætt, réttur til öryggis, réttur til upplýsinga, réttur til að velja, réttur til áheyrnar, réttur til úrlausnar, réttur til neytendafræðslu og réttur til heilbrigðs umhverfis.

Fyrir 30 árum var ég að vinna í versluninni Brynju á Laugavegi þegar gerð var húsleit í fjármálafyrirtæki fyrir okurvexti. Ég man ekki hversu háir okurvextirnir voru en ég held að þeir hafi verið í kringum 20–30%. Þá var bannað að okra 20–30% á almenningi. Nú eru smálán að leggja líf ungs fólks í rúst fjárhagslega, gjörsamlega, og það virðist engin leið að koma böndum á það. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt, ef hægt var að koma í veg fyrir okur fyrir um 30 árum, hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að stöðva þetta. Hvað er að hér hjá okkur á þingi að við getum ekki séð til þess að smálán, þessi bölvaldur sem stórskaðar ungt fólk fjárhagslega, séu bönnuð í eitt skipti fyrir öll? Ég segi bara: Það er kominn tími til að við bönnum þetta og það strax.