149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það má segja að hugur stjórnvalda til neytendamála birtist m.a. í því að neytendamál og samkeppnismál eru ekki undir sama ráðuneyti, svo furðulegt sem það má heita. Annað er að það er mjög erfitt fyrir neytendur að átta sig á hvort verið sé að hlunnfara þá eður ei. Við höfum hér apparat sem heitir Neytendastofa og er í því að kanna hvort verðmiðar séu á gínum í Kringlunni og sekta fyrir það, en að öðru leyti verðum við lítið vör við hvað það apparat á að gera.

Svo áfram sé haldið er verðlagseftirlit í landinu mest á hendi aðila sem eiga aðalverslunarkeðjurnar á Íslandi. Verðlagseftirlitið er á hendi ASÍ og lífeyrissjóðirnir eiga allar verslanirnar. Þetta er fullkominn hringur, algerlega fullkominn. Það er ekki auðvelt að vera neytandi á Íslandi. Það er heldur ekki auðvelt að vera upplýstur neytandi á Íslandi vegna þess að við vitum afskaplega lítið um, eins og hér hefur komið fram, hvernig þær vörur sem seldar eru á Íslandi eru fengnar.

Fréttir hafa borist af því utan úr heimi að mjög illa er farið með konur, það eru aðallega konur, sem eru að taka upp grænmeti og tína telauf og annað. Þær eru misnotaðar í mörgum tilfellum. Þær eru náttúrlega á smánarlaunum og allt til þess að nyrðri hluti heimsins, þar sem við búum, geti fengið ódýrari vörur, sama hvernig þær eru fengnar. Um þetta fáum við engar upplýsingar, ekki nokkrar.

Þörf er á átaki í því að efla neytendamál á Íslandi. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að fara í það verkefni og hef fulla trú á því að hún muni vinna sitt í því efni, vegna þess, eins og ég hef verið að reyna að rekja hér (Forseti hringir.) í þessum fáu orðum, að þessi mál eru í algjörum lamasessi á Íslandi.