149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[16:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Málið sem við fjöllum um hér er eitt af þeim málum sem lætur kannski ekki mikið yfir sér og fær kannski ekki nægilega mikla athygli í umróti síkvikrar umræðu, en er risastórt mál fyrir þau sem það varðar. Fyrir mann eins og mig, sem getur tjáð sig og skilið án túlkunar það sem fram fer og ég þarf að sækja og ganga eftir í íslenskri stjórnsýslu, getur verið erfitt að setja sig í þau spor að geta það ekki. Og þegar lýtur að því sem á að vera grundvallarréttur okkar og er, þ.e. að sækja rétt okkar fyrir dómi, er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að þar hafi allir þá sjálfsögðu þjónustu að geta haft aðgang að túlkun. Það á í raun við, sama hvert móðurmálið er.

Í þessu tilfelli erum við að tala um íslenskt táknmál, sem eins og hér hefur komið fram er skilgreint sem móðurmál og er jafn rétthátt íslensku samkvæmt þeim lögum sem sett hafa verið á hinu háa Alþingi. Það er því í raun dálítið sérstakt að við séum að púsla því saman löngu síðar að gera íslenskt táknmál örlítið rétthærra þegar okkur ber samkvæmt lögum að standa þannig að málum að það sé jafn rétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna á milli og óheimilt sé að mismuna fólki eftir því hvort málið það noti. Þetta er ekkert opið fyrir miklum túlkunum, hvorki táknmálstúlkunum né öðrum túlkunum, það er einfaldlega óheimilt að mismuna fólki eftir því hvort málið það notar.

Þess vegna er mikið fagnaðarefni að þetta frumvarp skuli koma fram af því að það snertir á þessum grundvallarréttindum. Eitt er að njóta túlkunarinnar, annað er að greiða fyrir hana. Það er gott að íslenska ríkið skuli ætla að greiða kostnað vegna táknmálstúlka sem aðallega eru kallaðir til við meðferð einkamála líkt og við meðferð sakamála. Það getur ekki með nokkru móti talist sanngjarnt að fólk sem reiðir sig á íslenskt táknmál þegar það hefur samskipti við stjórnvöld þurfi sjálft að greiða fyrir túlkun. Þá færum við ekki eftir þeim lögum að mismuna ekki fólki eftir því hvort málið það notar. Ekki myndi ég þurfa í mínum málarekstri leggja út sérstakar greiðslur fyrir túlkun. Þess vegna væri og er mjög óeðlilegt að sá eða sú sem á því þarf að halda þurfi að leggja út fjárhæðir.

Eins hefur verið farið ágætlega yfir það hversu mikil réttarbót er fólgin í því að gera ráð fyrir þeim möguleika að einkamál verði flutt munnlega fyrir Landsrétti og Hæstarétti Íslands þrátt fyrir að stefndi taki þar ekki til varna.

Eins er komið inn á skýrslutökur fyrir dómi, breytingar á lögum um meðferð sakamála og skýrslutöku hjá lögreglu og einmitt komið að því sem ég minntist á áðan. Svo er ágætt að hafa í huga að hér er verið að bregðast við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu og laga íslensk lög að þeim dómi, sem er nokkuð sem við verðum að gera víðar. Nú má flytja mál munnlega, eftir að þetta frumvarp verður vonandi að lögum, þegar stefndi tekur ekki til varna fyrir Landsrétti eða Hæstarétti Íslands.

Forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns hljómar þetta eins og þetta sé ekkert sérstaklega stórt mál, en það er risastórt. Ég verð að segja eins og er að ég er sérstaklega ánægður með þær spurningar sem velt er upp í nefndaráliti hv. allsherjar- og menntamálanefndar því að þrátt fyrir þá réttarbót og sjálfsögðu mannréttindi sem við erum að færa hér hópi fólks erum við hins vegar ekki að stíga skrefið alveg til fulls. Ég velti þeirri staðreynd upp, forseti, að þrátt fyrir samþykkt þessa frumvarps verður staðan ekki sú að einstaklingar geti undirbúið sig fyrir dómsmál með stuðningi táknmálstúlkunar með greiðslu af hálfu hins opinbera. Ég spyr hvort það samræmist ákvæði laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, sem ég vitnaði í áðan, um að óheimilt sé að mismuna fólki eftir því hvort málið það notar, þ.e. íslenska tungu eða íslenskt táknmál.

Hv. allsherjar- og menntamálanefnd hreyfir við þessu og segir, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur áherslu á að það er liður í réttlátri málsmeðferð að einstaklingur geti undirbúið sig fyrir dómsmál og telur þess vegna mikilvægt að réttindi þeirra sem reiða sig á íslenskt táknmál verði tryggð í undirbúningi dómsmála.“

Þess vegna beinir nefndin því til dómsmálaráðuneytisins að taka þessi mál til nánari skoðunar. Ég tel þetta í raun lágmarksafgreiðslu. Ég er mjög ánægður með að þetta sé reifað í nefndarálitinu, en jafn mikilvægt er að við látum slag standa og höldum áfram með þessi mál. Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til dáða í því að fylgja þessu eftir, að þetta verði meira en hvatning í nefndaráliti til ráðuneytisins um að taka þessi mál til nánari skoðunar, heldur sýni nefndin frumkvæði og fylgi því eftir hvort sú skoðun hafi farið fram og hvernig henni þá miði.

Eins er komið aðeins inn á menntunarkröfur. Hér hefur verið rætt um BA-próf og fleira slíkt. Þegar kemur að dómtúlkun verð ég að lýsa yfir sérstakri ánægju, og nóg var hún áðan, enn meiri ánægju með þetta ágæta álit hv. allsherjar- og menntamálanefndar því hér beinir nefndin því til dómsmálaráðuneytisins að taka til nánari skoðunar þetta fyrirkomulag, þau skilyrði sem sett eru fyrir táknmálstúlka til að öðlast rétt til að túlka fyrir dómi, því að tryggja þarf fagþjónustu við dómskerfið sem og leið réttaröryggi við meðferð mála fyrir dómi. Hér er horft mjög heildstætt á hver vandinn er, ef við samþykkjum að þetta sé vandamál eins og komið hefur fram í gestakomum hjá hv. nefnd, og bent á að það þurfi að skoða fyrirkomulag námskeiða og prófa og skilyrði fyrir táknmálstúlka til að öðlast rétt til að túlka fyrir dómi.

Forseti. Ég sýni því fullkominn skilning að það sé ekki hlutverk allsherjar- og menntamálanefndar að fjalla um þetta einstaka mál en rétt að gera akkúrat eins og hún gerir, að beina því til dómsmálaráðuneytis að taka þetta atriði til nánari skoðunar. Þar vil ég aftur ítreka frýjuorð mín til nefndarinnar um að fylgja þeirri skoðun eftir. Við vitum hvernig starf þingmannsins er, við sökkvum okkur ofan í þetta mál þessa stundina og afgreiðum eftir bestu getu. Svo kemur næsta mál næstu stundina. En eftirfylgnin er mikilvæg og ég treysti hv. allsherjar- og menntamálanefnd vel til að fylgja þessu máli eftir.

Það hefði verið ánægjulegt að eiga orðastað við hæstv. ráðherra málaflokksins um þessi mál. Ég ætla, forseta, ekki að gera kröfu um að gert verði hlé á umræðunni á meðan kallað verði í hæstv. ráðherra, en áskil mér allan rétt til þess að eiga orðastað við ráðherrann um akkúrat þessi atriði síðar, bæði í frekari umfjöllun um þetta mál, en eins almennt í þingstörfum.

Ég ítreka það að þegar við horfum á dagskrá þingsins og skoðum hvaða mál það eru sem eru kannski mikilvægust, þá er það oft þannig að þegar gægst er undir yfirborðið eru það ekki þau mál sem hrópa hvað hæst í fyrirsögnunum sem eru mikilvægust, heldur þau sem breyta lífi þeirra sem um er fjallað í þeim á sem mestan hátt, tryggja réttindi þeirra. Þetta er eitt af þeim málum.