149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[16:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég var ekki viðstaddur afgreiðslu þessa máls úr allsherjar- og menntamálanefnd. Ég lýsi mig að sjálfsögðu fylgjandi því nefndaráliti sem hér hefur verið mælt fyrir. Þetta mál er eitt af mörgu litlu skrefunum sem tekin hafa verið og taka þarf í framhaldinu til að við uppfyllum í alvöru þá skyldu sem hvílir á herðum okkar við það að hafa gert íslenskt táknmál að opinberu máli til jafns við íslensku.

Hér er bara tekið á afskaplega þröngum þætti daglegs lífs, og ekki einu sinni daglegs lífs, hér er tekið á þeim þætti þegar fólk fer með mál fyrir dómstóla, þar sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að einstaklingar fái túlkun yfir á það tungumál sem þeim er tamast til að geta tryggt rétt sinn. En opinbert tungumál er opinbert á öllu landinu. Því miður er það ekki enn þá reyndin með íslenska táknmálið. Þó að það sé vissulega gleðilegt að við stígum það skref að opna fyrir táknmálstúlkun fyrir dómstólum þurfum við t.d. að vinna í því að döff fólk fái notið tækifæra á vinnumarkaði með því að tryggja túlkun þar. Og eins þurfum við að styrkja stöðu döff fólks í skóla á öllum skólastigum, að þar sé túlkaþjónusta og öll sú þjónusta sem fólk kann að þurfa til að geta náð að lifa lífi til jafns við okkur sem tölum hitt opinbera tungumál landsins.

Ég ætlaði rétt að nefna þetta, frú forseti, aðallega til þess að ég gæti sagt litla dæmisögu um það hvernig samfélagið er að þróast. Á þeim stutta tíma sem ég hef átt með hv. þm. Páli Magnússyni í allsherjar- og menntamálanefnd höfum við tekið nokkrum þroska. Það er ekki nema tæpt ár síðan við fengum formann Félags heyrnarlausra, Heiðdísi Dögg Eiríksdóttur, á fund nefndarinnar. Hún bar upp spurningu bréfleiðis til okkar: Pöntuðuð þið ekki örugglega túlk? Nú kom vel á vondan. Alþingi Íslendinga, sem sett hafði þessi lög um íslenska táknmálið sem opinbert mál á Íslandi, hafði ekki pantað túlk. Það vildi svo vel til að Heiðdís var með túlk í nágrenninu og sá gat stokkið til með litlum fyrirvara og túlkað fyrir hana þannig að hún gæti komið á framfæri mikilvægum athugasemdum við þingmál sem var til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd hér á vordögum 2018. Af þessu lærðum við. Þannig að nú er það komið í fast verklag nefndasviðs að þegar gestir eru boðaðir á fundi sem kunna að þurfa einhverja þjónustu til að geta komið sínum sjónarmiðum á framfæri á fullnægjandi hátt, er þess gætt sérstaklega að þjónustan sé fyrir hendi.

Þó að við höfum kannski ekki átt okkar bestu stund hér fyrir tæpu ári síðan þá lærðum við af því og höldum áfram, vona ég, að bæta stöðu þeirra sem reiða sig á íslenska táknmálið til að taka þátt í samfélaginu í framtíðinni.